Bikarmót Krulludeildar: Skytturnar sigruðu

Bikarmeistarar Krulludeildar 2007 - Skytturnar. Frá vinstri: Sigurgeir Haraldsson, Ágúst Hilmarsson,…
Bikarmeistarar Krulludeildar 2007 - Skytturnar. Frá vinstri: Sigurgeir Haraldsson, Ágúst Hilmarsson, Jón S. Hansen og Árni Arason.
Skytturnar eru bikarmeistarar Krulludeildar SA 2007 eftir sigur á Fífunum í úrslitaleik.


Segja má að Skytturnar hafi lagt grunninn að sigrinum í fyrri hluta leiksins því liðið skoraði tvö stig strax í fyrstu umferðinni og eftir að Fífurnar minnkuðu muninn með því að skora eitt stig í annarri umferð bættu Skytturnar við fjórum stigum í þeirri þriðju og staðan því 6-1 þeim í vil þegar leikurinn var hálfnaður. Fífurnar náðu að minnka muninn í síðari hluta leiksins en það dugði þeim ekki. Skytturnar stóðu uppi sem sigurvegarar og lokatölurnar 7-4.

Áður en að úrslitaleiknum kom höfðu Fífurnar lagt að velli Riddara, Garpa og Víkinga en Skytturnar höfðu sigrað Svarta gengið, Bragðarefi og Riddara. Fífurnar voru að spila í fyrsta sinn í úrslitaleik Bikarmótsins en Skytturnar í annað sinn.

Þetta er í fyrsta skipti sem Skytturnar verða bikarmeistarar en í liðinu eru þau Ágúst Hilmarsson, Árni Arason, Birgitta Reinaldsdóttir, Jón S. Hansen og Sigurgeir Haraldsson. Krulluvefurinn óskar Skyttunum til hamingju með bikarinn. Árni Arason var með þessum sigri að vinna Bikarmótið öðru sinni en aðrir liðsmenn í sitt fyrsta skipti.