Birna með tvennu í sigri Ásynja

Ásynjur báru sigurorð af SR í leik helgarinnar, lokatölur 3-1. Fyrirfram var búist við nokkuð auðveldum sigri Ásynja en annað kom á daginn þar sem SR liðið spilaði virkilega vel og gerði sterku lið Ásynja erfitt fyrir.

Í lið Ásynja vantaði Guðrúni Viðarsdóttur en SR naut liðstyrks Hrundar, Védísar og Stefaníu úr Birninum. Leikurinn var mjög jafn framan af og bæði lið spiluðu vel varnarlega.

Ekkert mark var skorað í fyrstu lotu og það var ekki fyrr en í annarri lotu sem Ásynjur fóru að síga fram úr. Fyrsta mark leiksins kom eftir 28 mínútna leik en þá skoraði Birna Baldursdóttir fallegt mark eftir stoðsendingu Guðrúnar Blöndal. Það liðu ekki nema hálf mínúta þar til tvíeykið síunga splundruðu vörn SR í annað sinn en Birna var þá aftur á ferðinni með annað gott skot upp í markhornið og aftur var það eftir undirbúning Guðrúnar Blöndal. Þess má geta að þetta var annar kappleikur Birnu á sama degi í efstu deild en fyrr um daginn slátraði hún Þrótti í Íslandsmótinu í blaki. SR komst inn í leikinn í þriðju lotu og minnkuðu muninn í eitt mark með marki frá Lauru Murphy. Katrín Ryan gerði svo út um leikinn þegar um 9 mínútur lifðu leiks með flottu skoti upp í markhornið en stoðsendingin kom ekki frá neinni annarri en Guðrúni Blöndal sem lagði upp öll mörk Ásynja í leiknum.

Það er ljóst að lið SR er að styrkjast og gaman að sjá að liðið er farið að veita öðrum liðum keppni sérstaklega í ljósi þess hve stutt er síðan liðið komst á laggirnar. Ásynjur tróna þó enn á toppi deildarinnar ósigraðar en næsti leikur þeirra er á heimavelli gegn Birninum 24. janúar.