Bronsið í höfn, besti árangur Íslands

Andri Már var maðurinn í dag. Af vef mótsins.
Andri Már var maðurinn í dag. Af vef mótsins.


Íslendingar unnu til bronsverðlauna í A-riðli 2. deildar Heimsmeistaramótsins í íshokkí með sigri á Serbum í lokaleiknum í dag, 5-1. Andri Már Mikaelsson var valinn maður leiksins í íslenska liðinu. Ingvar Þór Jónsson lék sinn 70. landsleik.

Þetta er besti árangur íslenska liðsins á HM til þessa, en í fyrra varð liðið í fjórða sæti. Ef marka má viðtöl við leikmenn íslenska liðsins á mbl.is eftir leikinn og umfjöllun þar má draga þá ályktun að Serbar hafi aldrei átt möguleika gegn íslenska liðinu í dag. Það var þó ekki fyrr en eftir um 15 mínútna leik sem fyrsta markið kom, staðan 1-0 eftir fyrsta, síðan 3-1 eftir annan leikhluta og úrslitin 5-1. Lokatölur: Ísland - Serbía 5-1 (1-0, 2-1, 2-0).

Andri Már Mikaelsson skoraði eitt marka íslenska liðsins í dag og var hann í leikslok valinn maður leiksins í íslenska liðinu. Stefán Hrafnsson átti stoðsendingu í marki Andra, en Jóhann Már leifsson var með stoðsendingu í marki Jóns B. Gíslasonar.

Ingvar með 70. landsleikinn
Það hefur líklega ekki komið fram í fréttum okkar hér á sasport.is áður að okkar maður, Ingvar Þór Jónsson, er fyrirliði landsliðsins. Hann spilaði í dag sinn 70. landsleik og var að vonum ánægður með árangurinn eins og heyra má í viðtali á mbl.is.

Viðtal við Jón B. Gíslason á mbl.is - Jón spilaði í dag sinn 65. A-landsleik, en hann hefur verið í landsliðinu í 14 ár. Jón er 29 ára og hefur verið í landsliðinu frá því að því var komið á fót. Hann var einnig í viðtali við mbl.is eftir leikinn - og hér má sjá markið sem hann skoraði í dag.

Umfjöllun mbl.is.