EM í krullu: Ísland í 5. sæti eftir aukaleik


Okkar menn töpuðu naumlega fyrir Slóvenum í aukaleik (tie-breaker) í morgun, eftir að hafa haft yfirhöndina framan af leiknum. Draumurinn um B-keppnina er úti.

Þó svo aðeins hafi sjö lið tekið þátt komast fjögur lið áfram í úrslitakeppni og tvö þau efstu eftir úrslitakeppnina vinna sér rétt til þátttöku í B-keppninni sem fram fer í Karlstad í Svíþjóð síðar á árinu.

Okkar menn lentu í magakveisu - eins og reyndar öll liðin nema heimamenn - og áttu erfiða fyrstu tvo keppnisdaga, töpuðu þá fjórum fyrstu leikjunum. Á þriðja degi voru menn orðnir hressari og unnu þá bæði Slóvena og Rúmena, sem tryggði þeim 4.-5. sæti í riðlinum ásamt Slóvenum og þar með aukaleik (tie-breaker) gegn Slóvenum um það hvort liðið kæmist inn í úrslitakeppnina sem fjórða lið. Sá leikur fór fram í morgun og höfðu Íslendingar yfirhöndina framan af og alveg fram að lokaumferðunum þegar Slóvenum tókst að snúa við blaðinu og sigra með því að stela tveimur stigum í lokin. Þetta þýðir að Íslendingar hafa lokið keppni og enda í 5. sæti. 

Króatar unnu alla sex leiki sína í riðlinum og leika gegn Tyrkjum um það hvort liðið fer beint í úrslitaleikinn, en Tyrkir unnu fimm leiki af sex. Hvít-Rússar náðu þriðja sæti riðilsins og þurftu því að bíða eftir úrslitum úr "tie-breaker" leiknum á milli Íslands og Slóveníu.

Það eru því Króatar, Tyrkir, Hvít-Rússar og Slóvenar sem berjast um tvö laus sæti í B-keppninni sem fram fer í Karlstad síðar á þessu ári.