Karfan er tóm.
Félagar í Skautafélagi Akureyrar eru allir þeir sem iðka sína íþrótt í Skautafélaginu eða nýta aðstöðuna á einn eða annann hátt. Einnig geta allir sem áhuga hafa á félaginu og starfsemi þess gerst félagsmenn með greiðslu félagsgjalds. Félagsgjöld eru ekki innifalin í æfingargjöldum. Félagsgjöld renna í sjóð hjá Skautafélaginu sem notaður er í að byggja upp innviði félagsins, bæta aðstöðu fyrir félagsmenn og halda í heiðri sögu félagsins. Fjárfestingar úr félagssjóði hin síðari ár hafa m.a. verið verðlaunaskápar, húsgögn í félagsherbergi og tækjabúnaður s.s. sjónvarp og skilti á veggjum skautahallarinnar með myndum úr sögu félagsins.
Nýjustu fjárfestingar sjóðsins eru kaup á upptökubúnaði sem nýttur er á viðburðum félagsins og sendir eru í beinni útsendingu á heimasíðunni öllum áhugasömum til góða. Á næstunni verða þessar útsendingar mun betri en ákveðið hefur verið að fjárfesta enn frekar í búnaðinum svo útsendingarnar verði í HD gæðum með endursýningum og fleiri upptökuvélum og má segja að útsendingarnar séu í sjónvarpsgæðum. Þetta er stórt skref í varðveislu sögu félagsins en þess að auki verður fjárfest í öflugri gagnageymslu svo félagsmenn hafi aðgang að öllu því efni sem tekið hefur verið upp hjá félaginu um ókomin ár.
Blikur eru á lofti að næsta verkefni sjóðsins verði stórtæk breyting á félagsaðstöðu félagsins sem hefst samhliða framkvæmdum á plötunni í húsinu vorið 2016 eins og sjá má á myndinni hér neðst. Teikningar gera ráð fyrir því að svarlirnar verði framlengdar að gleri og þar að auki komi ný hæð í húsið ofan við svalirnar þar sem er gert ráð fyrir æfingasal fyrir íþróttafólk félagsins. Félagsherbergið mun með þessu stækka mikið og bætast við eldhús, skrifstofur fyrir þjálfara og deildir ásamt heitu rými/sal fyrir veitingar og samkomur á vegum félagsins. Þetta er stórt verkefni sem sjóðurinn ræður að sjálfsögðu ekki einn við en það er draumur félagsins að grunnur að þessari aðstöðu verði lagður samhliða framkvæmdum á plötu vorið 2016. Hlutverk sjóðsins verður þá að styðja við uppbyggingu á þessari framkvæmd við félagsaðstöðuna sem verður algjör bylting fyrir starfsemi félagsins og alla þá sem sækja skautahöllina heim.
Félagsgjaldið er kr. 2.000 en bráðlega verða sendir út greiðsluseðlar á félagsmenn og við vonumst til að þú greiðir félagsgjaldið sem birtist á heimabanka þínum og leggir okkur lið við uppbyggingu félagsins. Ef þú ert ekki félagsmaður í dag en vilt fá greiðsluseðilinn þarft þú aðeins að senda póst á skautahollin@sasport.is og sækja um aðild.