Evrópumótið: Ísland tapaði naumlega fyrir Wales

Úr leik Íslands og Wales. Jens og Sveinn sópa en fyrirliðar liðanna, Jón Ingi Sigurðsson og Adrian M…
Úr leik Íslands og Wales. Jens og Sveinn sópa en fyrirliðar liðanna, Jón Ingi Sigurðsson og Adrian Meikle, fylgjast með.
Íslenska liðið sýndi góða baráttu gegn einu af toppliðum riðilsins. Tapaði naumlega fyrir Wales.

Íslenska liðið spilaði einn af sínum bestu leikjum í dag og gaf liði sem er í toppbaráttu riðilsins ekkert eftir og minnstu munaði að Íslendingum tækist að snúa leiknum sér í hag í næstsíðustu umverðinni.

Íslendingar byrjuðu vel á móti Wales og náðu þremur stigum strax í fyrstu umferðinni. Wales svaraði með einu stigi en okkar menn skoruðu strax eitt stig til baka. Í fjórðu umferðinni gengu hlutirnir ekki sem skyldi og þá skoraði Wales 5 stig og náði tveggja stiga forystu, 4-6. Ekkert var skoraði í fimmtu umferðinni og staðan því 4-6 þegar leikurinn var hálfnaður. Íslenska liðið lék vel eftir hlé og náði að minnka muninn í 6-7 og minnstu munaði í næstsíðustu umferðinni að við kæmumst yfir 9-6. Staðan var þannig að Wales átti síðasta stein en Ísland átti þrjá innstu steina og gat lokað leiðinni fyrir síðasta steini Wales. Sá steinn virtist lenda á einhverju smá korni og tók snögga beygju þannig að leiðin var opin og fyrirliði Wales gat lagt sinn stein inn á miðjuna og skorað eitt stig. Wales var því tveimur stigum yfir fyrir lokaumferðina en ef lokaskot þeirra í næstsíðustu umferðinni hefði geigað þá hefði staðan orðið allt önnur og íslenska liðið komist tveimur stigum yfir. Ísland þurfti því að skora tvö stig í lokaumferðinni til að jafna eða þrjú til að vinna leikinn. Andstæðingunum gekk vel að skjóta út steinum í lokaumferðinni og á endanum áttum við aðeins eftir einn stein en þurftum að skora tvö stig. Leiknum lauk því með sigri Wales, 6-8.

Skorið í leiknum:

 Ísland 
3
  1  0
  1 1  x 6
 Wales  1  5
  1  1
 x 8

Evrópska krullusambandið samþykkti fyrr á árinu að skipta Evrópumótinu í A, B og C-keppni í stað þess að nú eru bara A og B-keppni. Áfram verða tíu lið í A-keppninni, fjórtán lið verða í B-keppninni og önnur í C. Þetta þýðir að þrjú neðstu liðin úr hvorum riðli í B-keppninni nú fara niður í C en sú keppni fer væntanlega fram í september. Ekki hefur verið ákveðið hvar sú keppni fer fram. Fari svo að tvö eða fleiri lið verði jöfn í þeim sætum sem skipta máli varðandi það hvaða lið fara niður í C-keppni þá þarf að leika aukaleik(i) um það á fimmtudag.

Eftir leiki dagsins eru Íslendingar í 6.-7. sæti síns riðils með tvo sigra, eins og Króatar. Króatar eiga hins vegar eftir að leika við neðsta lið riðilsins og gætu því komist í þrjá vinninga. Ef Íslendingar spila hins vegar á morgun eins og þeir gerðu gegn Wales í dag gætu þeir allt eins náð sigri á móti Lettlandi eða Írlandi, en bæði þessi lið eru í toppbaráttunni. Það er því spennandi dagur framundan hjá okkar mönnum í Aberdeen. Kannski halda þeir sér í B-hópi þó þeir tapi báðum, kannski þurfa þeir sigur til að eiga möguleika.

Austurríki og Wales eru nú í efsta sæti riðilsins með sex sigra, næstir koma Ungverjar, Lettar og Írar með fimm sigra.

Úrslit allra leikja og stöðuna í keppninni í B-flokknum má sjá hér (neðarlega á síðunni).