Evrópumótið: Íslendingar einir á toppnum

Íslenska liðið vann þriðja sigur sinn á Evrópumótinu í gærkvöldi.Íslendingar unnu Tyrki, 8-7, í C-flokki Evrópumótsins í krullu í gærkvöldi. Liðið trónir nú eitt á toppnum með þrjá sigra.

Tyrkir byrjuðu af krafti og spiluðu betur en Íslendingar í byrjun leiksins. Íslenska liðinu tókst þó að halda stigaskorinu í lágmarki og var staðan 1-2 Tyrkjum í vil eftir þrjár umferðir. Þá breyttu Íslendingar um leikaðferð og náðu að skora þrjú stig í fjórðu og þrjú í fimmtu umferð. Staðan var því orðin 7-2 þegar leikurinn var hálfnaður.

Íslendingar skoruðu svo eitt stig til viðbótar í sjöttu umferðinni og áttu raunar möguleika á að gera endanlega út um leikinn í sjöundu umferðinni. Þá fengu þeir færi á að skjóta út tveimur steinum Tyrkja og skora fjögur stig, komast þannig í 12-2, en aðeins vantaði tommu upp á að það skot heppnaðist, þannig að Tyrkir skoruðu tvö stig, staðan því 8-4 en ekki 12-2.

Tyrkir tvíelfdust við þetta og spiluðu betur með hverri umferðinni, náðu að skora eitt stig í áttundu og eitt í níundu umferðinni. Staðan var því 8-6 fyrir lokaumferðina. Íslenska liðinu tókst að halda haus í lokaumferðinni en þó mátti ekki miklu muna því með síðasta steini sínum þurftu Íslendingar að skjóta út að minnsta kosti einum steini Tyrkjanna, annars hefðu þeir jafnað leikinn og þá þurft að spila aukaumferð. Tyrkir skoruðu reyndar eitt stig, en það nægði þeim ekki, íslenskur sigur var staðreynd, 8-7.

Okkar menn hafa nú unnið alla þrjá leiki sína til þessa og eru eina taplausa liðið í karlaflokki.