Evrópumótið: Tap gegn Hvít-Rússum

Íslenska liði tapaði sínum fyrsta leik á Evrópumótinu í dag.
Íslenska liðið lenti í vandræðum strax í upphafi leiks þegar Hvít-Rússar skoruðu fimm stig í fyrstu umferðinni. Í þeirri stöðu var einfaldlega spurningin um að halda haus og spila leikinn án þess að láta stöðuna hafa áhrif á liðsandann. Einmitt það gerði liðið og skoraði strax þrjú stig í annarri umferðinni. Hvít-Rússar juku síðan forskotið aftur í 7-3 en íslenska liðið saxaði jafnt og þétt á forskotið og komst loks yfir, 9-8, fyrir lokaumferðina. Í lokaumferðinni gekk ekki sem skyldi, misheppnuð skot og óheppni gáfu Hvít-Rússum tvö stig þegar upp var staðið og þar með sigur. Úrslitin 9-10 Hvít-Rússum í vil.

Íslendingar og Hvít-Rússar hafa unnið fjóra leiki og tapað einum, Slóvakar hafa unnið þrjá leiki og tapað einum. Slóvakar eiga eftir tvo leiki, Íslendingar og Hvít-Rússar eiga aðeins eftir einn leik. Ef þessar þjóðir vinna sína leiki raðast liðin i 1., 2. og 3. sæti eftir árangri í sérstakri skotkeppni sem fram fer fyrir hvern leik (Draw Shot Challenge). Efsta liðið fer beint í úrslitaleik kl. 18 á þriðjudag, hin tvö leika aukaleik um sæti í úrslitum og sæti í B-deildinni á þriðjudagsmorgun.

Tapi eitthvert af þessum þremur liðum leik til viðbótar standa hin tvö með pálmann í höndunum.

Íslendingar sitja yfir í næstsíðustu umferðinni sem hefst kl. 12 á morgun en lokaleikur liðsins verður gegn Litháen kl. 18.