Fjölgun liða í meistaraflokkum SA

Mynd úr myndasafni: Ásgrímur Ágústsson
Mynd úr myndasafni: Ásgrímur Ágústsson
Íslandsmótið hefst um helgina með tveimur leikjum, öðrum í kvenna og hinum í karlaflokki.  Skautafélag Akureyrar teflir að þessu sinni fram tveimur liðum í báðum meistaraflokkunum en það voru stelpurnar sem riðu á vaðið strax í fyrra.  Þar sem ruglings var farið að gæta með nöfnin og hvaða lið væri hvað, en þau voru ýmist kölluð eldri og yngri, a og b eða SA1 og SA2, var ákveðið að skíra í raun liðin upp á nýtt.

Aðalliðin, ef svo má segja, eru Víkingar og Valkyrjur en hin nýju lið eru Jötnar og Ynjur.  Það hefur verið tíðrætt um fjölgun liða í deildinni undanfarin misseri og fjölmargar hugmyndir ræddar í þeim efnum og sitt sýnst hverjum.  Allir eru samt sammála um að fjölgun liða er nauðsynleg til þess að íþróttin geti þrifist og því gerði ÍHÍ reglugerðarbreytingar í fyrra með það að markmiði að gera aðildarfélögunum auðveldar með að tefla fram fleiri liðum.  Breytingarnar eru fyrst og fremst þær að 3 – 4 leikmenn mega ganga á milli liða innan sama félags, þ.e.a.s. þegar annað liðið keppir má það fá lánaða fjóra leikmenn úr hinu liðinu.  Jafnframt mega leikmenn yngri en 17 ára spila með báðum liðum og það mun jafnframt veita þeim mikilvæga leikreynslu.

Kvennaliðið byrjaði á þessu í fyrra og árangurinn kom skemmtilega á óvart og skilaði sér í fleiri leikjum og meiri breidd.   Vonir standa til þess að það sama muni gerast hjá körlunum enda margir leikmenn sem eiga fullt erindi í deildina en þurfa að standa fyrir utan þar sem liðin eru svo að segja full.

Í dag spila Jötnar og Valkyrjur í Reykjavík og munu mæta Skautafélagi Reykjavíkur í Laugadalnum.