Fjölskyldu- og notendavænni Skautahöll


Gestir í Skautahöllinni á Akureyri hafa tekið eftir breytingum sem gerðar hafa verið í sumar og haust. Markmiðið er að til verði svæði þar sem fólk getur hist og sest niður án þess að krókna úr kulda. 

Markmið stjórnar Skautafélags Akureyrar er að gera Skautahöllina meira aðlaðandi sem stað til að heimsækja, stað til að hittast og efla félagslífið, bæði fyrir iðkendur, foreldra og aðra sjálfboðaliða sem bera uppi starfið í deildum félagsins.

Í þessu skyni var í sumar byggt eins konar plastkaffihús framan við sjoppuna og við aðalinnganginn. Þessu rými hefur nú verið lokað eins og mögulegt er til einangrunar og settur laus ofn til upphitunar. Borð og stólar eru komin í rýmið framan við sjoppuna þar sem til dæmis foreldrar geta sest niður og fylgst með æfingum barna sinna.

Í þessu rými er nú staðsett nettengd tölva sem ætluð er gestum til notkunar. Fyrst og fremst er hún ætluð þeim sem vilja fræðast nánar um sína íþrótt, til dæmis skoða myndbönd af krullu, listlaupi eða íshokkí, fræðast um reglur og fleira slíkt. Þá er einnig ætlunin að setja inn á þessa tölvu myndir og myndbönd frá keppnum í listhlaupi, íshokkí og krullu – og almennt úr félagsstarfinu. 

Alltaf í beinni
En það er ekki aðeins hægt að fylgjast með starfinu með því að mæta á staðinn því settar hafa verið upp tvær myndavélar sem streyma myndum beint af svellinu út á netið allan sólarhringinn. Athugið að þetta er ekki almenn leikjatölva fyrir gesti Skautahallarinnar heldur ætluð þeim sem vilja leita sér upplýsinga sem tengjast starfsemi og íþróttagreinum félagsins. Væntanlega mun þessi tölva einnig geta nýst þjálfurum deildanna í þeirra starfi.

Það voru hjónin Reynir Sigurðsson og Soffía Guðmundsdóttir sem tóku hluta af sumarfríinu sínu í að byggja „kaffihúsið“ – og það þarf heldur ekki að koma á óvart að Reynir sá jafnframt um að útvega og setja upp tölvuna sem um ræðir. Félagið kann þeim bestu þakkir fyrir.