Frábær skemmtun, ekki missa af næsta kafla!

Látum kné fylgja kviði! Mynd: Sigurgeir (16.10.12)
Látum kné fylgja kviði! Mynd: Sigurgeir (16.10.12)


Víkingar lögðu Björninn í æsispennandi leik í Skautahöllinni á Akureyri í gærkvöldi, 7-6, eftir að hafa lent þremur mörkum undir í fyrsta leikhluta. Einu stigi munar á liðunum. Fyrirheit um frábæra úrslitakeppni.

Víkingar virtust ekki vel stemmdir í fyrsta leikhluta, ef til vill stressaðir, ef til vill erfitt að gíra sig upp í þennan leik eftir að hafa spilað auðveldari leiki að undanförnu og unnið örugga sigra. Hver sem ástæðan var þá leit ekki út fyrir það þegar leið á fyrsta leikhluta að leikurinn ætti eftir að verða æsispennandi. En annað kom á daginn og Víkingar hrukku sannarlega í gang í öðrum leikhluta.

Björninn sýndi klærnar
Bjarnarmenn byrjuðu betur, komust í 0-1 með marki Úlfars Jóns Andréssonar, en Lars Foder jafnaði fyrir Víkinga nokkrum mínútum síðar. Slæmi kaflinn kom upp úr miðjum fyrsta leikhluta. Trausti Bergmann kom Birninum í 1-2 og síðan skoruðu Brynjar Bergmann og Hjörtur Björnsson tvö mörk fyrir Björninn á sömu mínútunni. Staðan orðin 1-4 og kominn tími til að okkar menn færu í gang. Lars Foder náði að laga stöðuna í 2-4 undir lok leikhlutans. Athyglisverðar tölur eftir fyrsta leikhluta í ljósi þess að síðasti leikur þessara liða endaði með 0-1 sigri Víkinga í Egilshöllinni.

Víkingar tóku land
Hafi áhorfendur á bandi heimamanna verið svartsýnir á framhaldið eftir fyrsta leikhluta þá voru Víkingar ekki lengi að svara því í öðrum leikhlutanum. Þeir komu siglandi, vígreifir og reiðubúnir í átök. Björninn átti fótum (skautum) fjör að launa og vissu vart hvaðan á þá stóð veðrið. Þegar upp var staðið unnu Víkingar þennan leikhluta 5-1.

Stefán Hrafnsson minnkaði muninní 3-4, Jóhann Már Leifsson jafnaði í 4-4, en aftur komust Bjarnarmenn yfir með marki frá Brynjari Bergmann. Andri Már Mikaelsson jafnaði þá leikinn í 5-5, Orri Blöndal kom Víkingum yfir í fyrsta skipti í leiknum, 6-5 og Jóhann Már Leifsson kom þeim í 7-5 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum.

Vörnin hélt
Með tveggja marka forsytu héldu Víkingar fullir sjálfstraust inn í þriðja leikhlutann og vörðust vel sóknum Bjarnarins. Eins og tölurnar um varin skot sýna voru það eðlilega Bjarnarmenn sem sóttu meira undir lok leiksins, en skot þeirra rötuðu ekki í markið fyrr en á lokamínútunni þegar Gunnar Guðmundsson minnkaði muninn í 7-6. Það var því áfram mikil spenna síðustu 53 sekúndurnar, en Víkingarnir stóðust prófið, pökkurinn rataði ekki oftar í markið og þeir höfðu því að lokum sigur. Lokatölur: Víkingar - Björninn 7-6 (2-4, 5-1, 0-1)

Leikurinn var hin besta skemmtun, jafn og spennandi eins og allar tölur sýna. Hér er ábending til hokkíáhugafólks og annarra Akureyrnga sem misstu af þessum leik: Það verður annar leikur á þriðjudaginn, ekki missa af honum líka. Þessi lið mætast þá aftur í Skautahöllinni á Akureyri og hefst leikur liðanna kl. 19.30. Áður, eða kl. 16.30 á þriðjudag, mætast Ynjur og SR í meistaraflokki kvenna.

Fyrirheit um frábæra úrslitakeppni
Leikur Víkinga og Bjarnarins gefur góð fyrirheit um skemmtilega og spennandi leiki þessara liða í komandi úrslitakeppni. Liðin eiga reyndar eftir að mætast tvisvar í deildinni, fyrst á Akureyri á þriðjudag og svo í Egilshöllinni í byrjun mars.

Með sigrinum í gær eru Víkingar aðeins einu stigi á eftir Birninum og eiga eftir að leika þrjá leiki, en Björninn aöeins tvo. Hér skal því endurtekið það sem reynt var að koma á framfæri fyrir leikinn í gærkvöldi: Nú skiptir stuðningur áhorfenda máli. Hvert stig er mikilvægt og með aukakrafti úr stúkunni getum við haldið áfram á sömu braut. Áhorfendur geta átt þátt í því að Víkingar vinni heimaleikjaréttinn og þar með oddaleik í úrslitakeppninni ef til þess kemur. Það getur skipt sköpum þegar upp er staðið hvort hingað kemur bikar eða ekki.

Mörk/stoðsendingar
Víkingar
Lars Foder 2/1
Orri Blöndal 1/2
Stefán Hrafnsson 1/1
Jóhann Már Leifsson 2/1
Andri Már Mikaelsson 1/1
Refsingar: 34 mínútur
Varin skot: 26 (7+6+13)

Björninn
Brynjar Bergmann 2/0
Úlfar Jón Andrésson 1/1
Trausti Bergmann 1/0
Hjörtur Björnsson 1/0
Gunnar Guðmundsson 1/0
Falur Guðnason 0/2
Sigurður Árnason 0/1
Róbert Freyr Pálsson 0/1
Daniel Kolar 0/1
Ólafur Björnsson 0/1
Bergur Einarsson 0/1
Refsingar: 32 mínútur
Varin skot: 25 (11+9+5)

Bein atvikalýsing úr leiknum