Fréttir af framkvæmdum og byrjun tímabils.

Þessa daganna stendur yfir lokafrágangur í framkvæmdum sem staðið hafa yfir í Skautahöllinni frá því í byrjun mars. Nýja kæliplatan er klár og byrjað verður á að setja upp nýjan ramma á morgun. Hvað framhaldið varðar eru margir óvissuþættir og margt ógert og þar af leiðandi erfitt að setja nákvæma dagsetningu á ís en stefnan er sett á byrjun september. En hvað sem því líður þá er það stutt í byrjun tímabilsins að Skautafélagsfólk getur klárlega farið að setja sig í stellingar og farið að venja komur sínar aftur á svæðið og hjálpað til ef því er að skipta. 

Til þess að fólk geri sér grein fyrir því sem eftir á að gera þá verður ekki byrjað að frysta fyrr en búið er að gefa grænt ljós á að platan sé klár fyrir frost og það verður athugað á allra næstu dögum á meðan verið er að koma rammanum upp. Í besta falli væri þá hægt að byrja ísgerð í næstu viku og hún getur tekið allt frá 7-12 daga frá því að frosti er hleypt á plötuna og að því gefnu að allt nýja kerfið virki sem skildi. Þá verður einnig ísinn sjálfur málaður og merktur en ekki platan sjálf eins og áður hefur verið. Ef eitthvað óvænt kemur upp þá getur þetta ferli að sjálfsögðu dregist. Um leið og ísinn er klár verður iðkenndum hleypt á svellið en Skautahöllin opnar þó ekki formlega fyrr en búið er að klára allann frágang og þá verður einnig fyrst opnað fyrir almenning. En meðan þessu ferli stendur biðjum við iðkenndur og félagsfólk um að fylgjast með hér á heimasíðunni og facebook síðunni okkar en við munum nú birta reglulega fréttir af öllu því sem ávinnst. Þá er einnig stefnt á að deildirnar komi á einni af næstu helgum og dragi fram sitt hafurtask og komi hlutunum á rétta staði en það verður einnig auglýst með þokkalegum fyrirvara. Það eru allavega nóg af verkum hér í Skautahöllinni á næstu dögum og vikum og allir þeir sem vilja flýta fyrir ferlinu er velkomnir í Skautahöllina.

Deildirnar eru nú þegar farnar að skipuleggja byrjun tímabilsins og verða æfingar auglýstar á næstu dögum hvort sem þær verða á ís eða af-ís.