Fréttir af starfsemi félagsins - upphaf vertíðar og framhaldið


Nú eru reglulegar æfingar komnar í gang bæði í listhlaupi og íshokkí, en krulluæfingar hefjast skv. tímatöflu í byrjun september. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á tímatöflu Skautahallarinnar, bæði með tilfærslu á tímum á milli deilda og breytingum innan deildanna.

Tímatöflur
Nú eru nýjar tímatöflur komnar í valmyndina til vinstri hjá Hokkídeild og Listhlaupadeild, en í valmyndinni til vinstri hér á forsíðunni er tímatafla með tímum allra deilda

Starfsmannamál
Þar sem nú er uppi ákveðið millibilsástand í starfsmannamálum verður skert viðvera starfsmanna fyrri hluta dags. Fastir starfsmenn í húsinu verða fyrst um sinn Haraldur Ingólfsson og Marija Baric. Marija mun starfa annars vegar við þrif og hins vegar að hluta í afgreiðslunni þegar opið er fyrir almenning. Haraldur mun áfram sjá um heimasíðu félagsins og ýmislegt því tengt, en hann verður að jafnaði á vaktinni í Skautahöllinni frá kl. 14 á daginn og fram á kvöld við hefðbundin störf (alls konar), auk lengri viðveru um helgar. Reynir Sigurðsson verður í afleysingum ásamt hugsanlega fleirum. Það verður því engin regluleg viðvera starfsmanns í húsinu framan af degi fyrst um sinn, utan þess að suma daga er listhlaupsþjálfari með aukaæfingar að morgni eða upp úr hádegi.

Breyting á almenningstímum
Gerðar hafa verið breytingar á almenningstímunum frá því sem verið hefur. Fyrst um sinn verða ekki opnir almenningstímar á miðvikudögum og fimmtudögum. Opið verður á föstudögum kl. 13-16 eins og verið hefur, en við vekjum sérstaka athygli á breyttri tímasetningu á skautadiskóinu á föstudagskvöldum, en það verður kl. 19.00-21.00.
Opið verður á laugardögum kl. 13-17, en þó með þeim fyrirvara að vegna mótahalds og kappleikja getur stundum þurft að loka kl. 16.00.
Á sunnudögum verður almenningstíminn styttur, opið verður kl. 13.00-16.00. Kl. 16.15 bætist inn tími hjá hokkídeild ætlaður úrvalshópi kvennaflokks í íshokkí.

Almenningstímar verða því sem hér segir:
Föstudagar kl. 13-16
Föstudagskvöld – diskó kl. 19.00-21.00
Laugardagar kl. 13-17 (styttra þegar nauðsyn krefur vegna mótahalds og kappleikja)
Sunnudagar kl. 13-16
Verðskrá fyrir aðgang og skautaleigu hækkar ekkert frá því í fyrra.