Fyrsti sigurinn á Spánverjum - möguleiki á bronsinu

Orri Blöndal skoraði í morgun. Mynd af vef mótsins
Orri Blöndal skoraði í morgun. Mynd af vef mótsins


Íslendingar unnu sinn annan sigur í A-riðli 2. deildar Heimsmeistaramóts karla í íshokkí í morgun þegar þeir mættu Spánverjum. Líkur á hreinum úrslitaleik um bronsið á morgun.

Jafnt var í fyrstu tveimur leikhlutunum, en Íslendingar unnu þriðja leikhlutan 4-1 og tryggðu sér sigur. Orri Blöndal skoraði eitt marka liðsins og átti eina stoðsendingu. Mark Orra var skondið því það kom þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum. Staðan var þá 5-3 Íslandi í vil og Spánverjar höfðu tekið markvörð sinn útaf til að bæta við sóknarmanni. Orri vann pökkinn á eigin varnarsvæði og skoraði beint í autt markið þaðan - sjá myndskeið á mbl.is. Jóhann Már Leifsson átti eina stoðsendingu. Lokatölur: Ísland - Spánn 6-3 (1-1, 1-1, 4-1).

Ólafur Hrafn Björnsson var valinn maður leiksins úr íslenska liðinu eftir sigurinn á Spánverjum - hér er viðtal við hann á mbl.is og umfjöllun mbl.is um leikinn.

Tap gegn Króötum - markvörður Íslands með stórleik
Á miðvikudag léku Íslendingar gegn Króötum og töpuðu þá 1-6, eftir að markvörður íslenska liðsins hafði haldið liðinu á floti fram í þriðja leikhluta. Lokatölur: Ísland - Króatía 1-6 (0-1, 0-0, 1-5).

Markvörður Íslands, Dennis Hedström, hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum á mótinu. Íslenska liðið átti nokkuð færri skot á mark en það spænska, 22 skot á móti 34. Munurinn var enn meiri í leiknum gegn Króatíu þar sem íslenska liðið átti 16 skot að marki en það króatíska 49. Pistill fararstjóra eftir leikinn gegn Króatíu.

Möguleiki á bronsinu
Lokaleikur íslenska liðsins verður gegn því serbneska á morgun. Serbía er með sex stig, einu stigi meira en Ísland, og leikur gegn Króatíu í kvöld. Fari svo sem búast má við að Króatar vinni þann leik verður leikurinn gegn Serbíu hreinn úrslitaleikur um bronsverðlaunin. Leikurinn verður kl. 14.30 að íslenskum tíma á morgun, laugardag. Hvernig sem allt fer hefur íslenska liði að minnsta kosti tryggt sæti sitt í deildinni.

"Ég varla trúi þessu"
Í morgunblaðinu í morgun er skemmtileg umfjöllun um aðstoðarmenn landsliðsþjálfarans. Þar segir meðal annars: "Bandaríski landsliðsþjálfarinn, David MacIsaac, fékk mikla fagmenn til þess að aðstoða íslenska landsliðið í 2. deild heimsmeistaramótsins í íshokkí í Zagreb í Króatíu. Aðstoðarþjálfarinn Darren Rumble hefur fengist við þjálfun atvinnumanna í mörg ár og státar af því að hafa unnið sjálfan Stanley-bikarinn á leikmannaferli sínum. Sjúkraþjálfarinn Emanuel Sanfilippo starfaði í fimm ár með Philadelphia Flyers í NHL-deildinni." - Ljóst er að Íslendingar njóta góðs af vinnu þessara fagmanna og hafa áunnið sér virðingu þeirra með getu sinni og hæfileikum.