Gamlir taktar teknir fram


Misjafnlega gamlir og mishraðir hokkímenn mættust á svellinu í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Mikið var skorað, hart tekist á en vonandi allir vinir þegar heim var haldið. Sumir ef til vill meiri vinir en aðrir, ef marka má myndina hér að ofan... en eins og oft áður er von á betri myndum því á milli þess sem Sigurgeir Haraldsson fór mikinn á svellinu brá hann linsunni á loft og gæti hafa hitt á sama mann og fréttaritari heillaðist af.

Fréttaritari var ekki með alla athyglina á leikjum kvöldsins hverja einustu mínútu, en í þau skipti sem hann gjóaði augunum á svellið var aðallega einn leikmaður sem vakti athygli hans. Þar var á ferðinni gríðarlega fljótur, nokkuð smávaxinn maður sem samsvarar sér þó vel, vel hærður á höfuð og andlit, með nafn er hæfir forseta. Hann var svo fljótur að dómurum tókst aldrei að dæma hann rangstæðan, þeir hreinlega sáu ekki hvenær hann skautaði yfir rangstöðulínuna. Þess má geta að umræddur hokkímaður, margfaldur Íslandsmeistari með liði sínu á árum áður, kom ekki til fréttaritara og bað hann um að fara um sig fögrum orðum.

Þó svo fréttaritara hafi skort athygli til að taka eftir öðrum heyrðust oft aðdáunarandköf í fjölmörgum áhorfendum - sem reyndar voru flestir leikmenn þeirra liða sem hvíldu hverju sinni. Stemningin var góð fyrir aftan glerið og hverju marki sumra liða fagnað eins og um úrslitamark á HM væri að ræða.

Þegar upp er staðið má segja að í kvöld hafi gamlir taktar verið teknir fram, sumir þó sýndir hægar en áður.

Úrslit leikja:
SA - SR  4-3
Björninn - Team Helgi 2-12
SR - SHS 5-6 

Leikjadagskrá laugardagsins:
Kl. 16.00: Heflun
Kl. 16.15: SA - SHS
Kl. 17.05: SR - Björninn (heflun í leikhléi)
Kl. 18.05: Team Helgi - SHS
Kl. 18.50: Heflun
Kl. 19.05: SA - Björninn
Kl. 19.55: SR - Team Helgi (heflun í leikhléi)
Kl. 20.55: Björninn - SHS
Kl. 21.25: SA - Team Helgi (heflun í leikhléi)