Karfan er tóm.
Á laugardaginn hófu ungu dömurnar í 8 b leikinn þar hafnaði Eva María í 4. sæti og Freydís Jóna í því 6.
Því næst tóku stelpurnar í 10 b við keflinu og er óhætt að segja að SA stelpurnar hafi sigrað flokkinn með stæl. Kolfinna Ýr varð í 1. sæti með 22.37 stig, Júlía Rós varð í 2 sæti með 18.25 stig, Bríet Berndsen varð í 3 sæti með 16.64 stig, Anna Karen varð í 7. sæti með 14.81 stig og Thelma Marý varð í því 10. með 11.96 stig.
Því næst var komið að Stúlknaflokki A með stutta prógramið sitt. Emilía Rós Ómarsdóttir gerði sér lítið fyrir og setti nýtt stigamet 30.65 stig og stóð hún lang efst eftir fyrri daginn. Því miður voru bæði Marta María og Pálína fjarri góðu gamni um helgina.
Unglingaflokkurinn tók svo við og þar áttum við 2 keppendur þær Elísabet Ingibjörgu (Guggu) og Hrafnhildi Ósk. Gugga var nokkuð frá sínu besta eftir fyrri daginn og stóð hún sjöunda í lok dags. Hrafnhildur Ósk sneri til baka í keppni eftir rúmlega 8 mánaða hlé og stóð hún áttunda eftir fyrri daginn. Það var ánægjulegt að sjá Hrafnhildi aftur á ísnum og verður gaman að fylgjast með henni á komandi misserum.
Gestakeppandi á mótinu var Ivana okkar Reitmayerova. Hún var að skauta fyrir framan dómara í fyrsta skipti í 4 ár og gerði hún mjög vel. Það er búið að vera ánægjulegt fyrir okkur að fylgjast með henni æfa sig fyrir mótið og frábært fyrir ungu iðkendurna okkar að fá tækifæri til að fylgjast með henni jafnt við þjálfun, æfingar og um helgina í keppni. Hún lauk stuttaprógraminu með 40.39 stig
Þá var komið að keppni í stúlknaflokki B. Þar átti SA tvo keppendur þær Evu Björg sem hafnaði í 3 sæti og Huldu Berndsen, sem lauk því miður ekki keppni að þessu sinni.
Sunnudagurinn rann svo upp og þá var komið að keppni í yngri A flokkunum. Í 8 ára og yngri A gerði Ísold Fönn sér lítið fyrir og sigraði með 27.0 stigum. Það er gaman að segja frá því að auk þess að vera með Axel í prógramminu er skvísan með 3 tvöföld stökk og reyndi við það 4 sem er algjörlega frábært hjá þessari flottu stelpu.
Því næst var röðin komin að Rebekku Rós í 10 A. Hún hafnaði í 1. sæti með 32.28 stig eftir nánast hreint prógramm.
Í 12 A hélt keppnin áfram milli þeirra tveggja sem staðið hafa efstar í flokknum á öllum mótum vetrarins Í þetta skiptið hafði Ásdís Arna Fen betur og sigraði með 38.76 og önnur varð Aldís Kara með 36.59.
Emilía Rós gerði sér svo lítið fyrir og sló, svo um munaði, heildarstigamet í Stúlknaflokki A og hlaut hún 50.40 stig fyrir langa prógramið og 81.05 stig samanlagt. Emilía Rós hefur átt frábært keppnistímabil í vetur þrátt fyrir að hafa lent í umferðaróhappi að loknu bikarmóti ÍSS í október. Emilía hefur unnið gríðarlega vel og er hún nú að uppskera eftir allt erfiðið. Innilega til hamingju með árangurinn.
Í unglingaflokki átti Elísabet Ingibjörg mun betri dag seinni daginn og lenti hún í þriðja sæti fyrir langa prógramið með 54.24 stig og hafnaði hún í 6 sæti samanlagt. Hrafnhildur Ósk lauk langa prógraminu með 35.21 stig og hafnaði samanlagt í 8. sæti með 57.36 stig.
Ivana lauk svo mótinu með því að skauta langa prógramið sitt. Henni var vel fagnað á ísnum báða dagana og var hún ánægð með sig að lokinni keppni. Hún lauk keppni með samanlagt 108 stig fyrir bæði prógrömin.