Karfan er tóm.
Í kvöld áttust við lið SA og Reykjavíkur í meistaraflokki á heimavelli SA stúlkna í skautahöllinni á Akureyri. Leiknum lauk með sigri SA, 9:4. Sigurinn var aldrei í hættu og komst SA mest í 8:1. Sami Lehtinen spilaði fram 21 leikmanni meðan Reykjavíkur-liðið var aðeins með 13. Í liði SA komu nú enn inn ungar stúlkur sem eru að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki og stóðu þær sig vel þó þær væru greinilega svolítið taugaóstyrkar. Þrátt fyrir að vera aðeins með 11 útispilara börðust Reykjavíkurstúlkur vel. Sigur SA var samt verðskuldaður og öruggur.
Leikurinn var skemmtilegur á að horfa og SA-stelpurnar spiluðu vel saman og virðast vera farnar að lesa hver aðra vel. Kolbrún Garðarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins um þrjár og hálfa mínútu og átti Sarah stoðsendinguna. Reykjavíkurstúlkur jöfnuðu fljótlega en Sara var ekki lengi að svara fyrir SA eftir stoðsendingu frá Önnu Karen. Þriðja mark SA skoraði svo Berglind á 15. mínútu eftir stoðsendingu frá Söruh og Önnu Karen og staðan 3:1 eftir fyrstu lotu. Apríl skoraði mark án stoðsendingar strax í upphafi annars leikhluta og staðan 4:1. Fimmta markið skoraði svo Anna Sonja, eftir stoðsendingu frá Katrínu. Um 5 mínútum síðar skoraði Jónína með stoðsendingu frá Katrínu og Lindu og nokkru síðar Kolbrún, án stoðsendingar. Staðan eftir aðra lotu 7:1.
Í upphafi þriðju lotu skiptu bæði lið um markverði. Nýju markverðirnir byrjuðu báðar á nokkrum góðum markvörslum áður en Kolbrún skoraði áttunda mark SA með stoðsendingu frá Söruh og Önnu Karen. Reykjavíkurstúlkur svöruðu fljótt fyrir sig og skoruðu síðan aftur þegar SA stúlkur voru einni færri. Lokamark SA fullkomnaði svo Kolbrún þrennuna, þegar hún skoraði glæsilegt mark, stöngin inn, með stoðsendingu frá Söruh. Reykjavíkurstúlkum tókst að minnka muninn einungis tveimur sek. fyrir lok leiksins, og lokatölur leiksins voru 9:4 eins og áður sagði. SA er nú með 10 stig og Reykjavík með 2.
Mörk (stoðsendingar): Kolbrún 3 (1), Sarah 2 (3), Berglind 1, Apríl 1, Anna Sonja 1, Jónína 1, Anna Karen (3), Katrín (2) og Linda (1).
Birta varði 12 af 13 skotum og Sólveig 8 af 11.