Hallarbylting í WCF, varaforsetinn felldi forsetann

Kate Caithness og Les Harrison. Mynd: Michael Burns
Kate Caithness og Les Harrison. Mynd: Michael Burns
Ársfundur Alþjóða krullusambandsins, WCF, sem haldinn er í Cortina d'Ampezzo á Ítalíu í tengslum við Heimsmeistaramót karla í krullu, fer á spjöld sögunnar. Varaformaðurinn felldi formanninn í kosningu, fyrsta konan orðin forseti WCF.

Kanadamaðurinn Les Harrison hefur verið forseti WCF í fjögur ár og sóttist eftir endurkjöri nú. Sitjandi varaformaður, Kate Caithness frá Skotlandi, bauð sig fram gegn formanninum og sigraði í kosningu sem fram fór í dag. Kate verður þar með fyrsta konan til að verða forseti WCF. Krulluvefurinn hefur ekki upplýsingar um ástæður þess að sótt var að sitjandi formanni né heldur um "pólitísk" áhrif og afleiðingar sem þetta kjör gæti haft í krulluheiminum. Lesa má um kjörið meðal annars á krullufréttabloggi hér, en á sömu síðu var skýrt frá því í gær að þessi kosning væri í vændum, undir fyrirsögninni "Political Fireworks". Nýr varaformaður WCF er Svisslendingurinn Patrick Hürlimann og fjármálastjóri er Bandaríkjamaðurinn Andy Anderson. Aðrir í stjórn eru Graham Prouse frá Kanada, Young C. Kim frá Suður-Kóreu, Leif Öhman frá Svíþjóð og Niels Larsen frá Danmörku. 

Fyrir fundinum í dag lágu einnig nokkrar tillögur um reglubreytingar í krullunni en þær rótttækustu fengu ekki brautargengi. Meðal annars var lagt til að krulluleikir yrðu styttir úr 10 umferðum í 8, felld yrði niður sú regla að leika aukaleiki ef lið væru jöfn í sætum sem gefa keppnisrétt í úrslitum og að hætta að leika aukaumferðir ef leikar stæðu jafnir þegar hefðbundnum fjölda umferða væri lokið. Þessar tillögur voru allar felldar. Samþykkt var að fækka leikhléum niður í eitt 60 sekúndna hlé þar sem þjálfari fær að tala við liðið en þó þannig að klukkan gengur áfram á viðkomandi lið. Samþykkt var að leyfa rafmagnshjólastóla í hjólastólakrullu. Þá var samþykkt að banna öll samskipti þeirra sem sitja á "bekknum" við aðra en þá sem þar eru skráðir (þjálfari, varamaður...). Enn ein breytingin sem samþykkt var í dag og kann að skipta okkur hér á Íslandi mestu máli af því sem ákveðið var í dag er að ákveðið var að færa Heimsmeistara mót í Mixed Doubles og Heimsmeistaramót eldri leikmanna frá apríl til nóvember og tekur sú breyting gildi 2012. Slóvenía var í dag samþykkt sem 46. aðildarþjóð WCF.

Lesendur sem hafa áhuga á að fylgjast með gangi mála á HM er bent á vef mótshaldara hér: http://www.wmcc2010.it/.