HM eldri leikmanna í krullu: Aftur skellur í lok leiks

Skotar lögðu okkar menn á mótinu í dag, 10-3. Lokaleikurinn á morgun gegn Ítölum verður keppni um 7. sætið í riðlinum.

Íslendingar héldu í við Skota í fyrri hluta leiksins í dag. Skotar skoruðu fyrst tvö stig en Íslendingar jöfnuðu í næstu umferð. Aftur skoruðu Skotar tvö stig og Íslendingar minnkuðu muninn í 4-3. Þegar síðari hluti leiksins hófst má segja að Skotar hafi gert út um leikinn því þeir skoruðu fimm stig í fimmtu umferðinni, síðan eitt í þeirri sjöttu og létu Íslendingar þá gott heita, úrslitin 3-10 Skotum í vil.

Ísland  0 2 0 1 0 0 x  3
Skotland  2 0 2 0 5 1 x  10

Íslendingar sitja nú jafnir Ítölum í riðlinum en bæði liðin hafa unnið einn leik og tapað sex leikjum. Neðan við okkur eru svo Norðmenn án sigurs. Lokaleikur liðsins á morgun verður því barátta um 7. sætið í riðlinum því síðasti leikur okkar er einmitt gegn Ítölum og hefst hann kl. 17:00 að íslenskum tíma.

Mögulegt er að fylgjast með framgangi leikja umferð fyrir umferð á meðan þeir standa yfir á úrslitavef finnska krullusambandsins. Þar eru að sjálfsögðu öll úrslit og staðan í keppninni.