HM eldri leikmanna í krullu: Frábær sigur á Norðmönnum

Íslenska liðið búið að vinna einn leik og tapa einum á mótinu. Góður sigur á Norðmönnum nú síðdegis í dag.

Fyrri hluti leiksins var hnífjafn en í síðari hlutanum sigu Íslendingar framúr og sigruðu. Íslendingar hófu leikinn vel gegn Norðmönnum í dag. Þeir stálu einu stigi í fyrstu umferðinni, skoruðu stig þó svo Norðmenn ættu síðasta stein. Norðmenn jöfnuðu 1-1 í annarri umferð og Íslendingar skoruðu aftur eitt stig í þriðju umferðinni og aftur jöfnuðu Norðmenn í þeirri fjórðu og staðan 2-2 þegar leikurinn var hálfnaður. Íslendingar hófu síðari hluta leiksins með því að skora tvö stig og komust í 4-2 og svo í 5-2 í sjöttu umferðinni, aðeins tvær umferðir eftir og þriggja stiga forysta gegn Norðmönnum. Íslendingar héldu uppteknum hætti í næstsíðustu umferðinni, skoruðu eitt stig og forystan því orðin fjögur stig þegar lokaumferðin hófst. Það var of mikill munur fyrir Norðmennina til að vinna upp, þeir náðu að skora eitt stig í lokaumferðinni og 6-3 sigur okkar manna því staðreynd í öðrum leik þeirra á mótinu.

 Ísland   1 0 1 0 2 1 1 0 6
Noregur   0 1 0 1 0 0 0 1 3

Þetta er að sjálfsögðu frábær sigur hjá liðinu því Norðmenn standa framarlega í íþróttinni á heimsvísu. Dagurinn á morgun verður væntanlega erfiður því þá leika okkar menn tvo leiki, fyrst gegn heimamönnum, Finnum, kl. 10:00 að íslenskum tíma og síðan gegn Englendingum kl. 17:00 að íslenskum tíma.

Mögulegt er að fylgjast með framgangi leikja umferð fyrir umferð á meðan þeir standa yfir á úrslitavef finnska krullusambandsins.