Karfan er tóm.
Eins og hjá öðrum áhugamönnum í íþróttum hafa liðsmenn íslenska liðsins á HM eldri leikmanna í krullu ýmsu öðru að sinna en krullunni. Frumsýning Freyvangsleikhússins varð til þess að okkar menn fengu leik sínum flýtt í morgun.
Það hefur þurft dálitlar hrókgeringar til að íslenska liðið geti spilað sína leiki fullskipað. Eins og margir vita er Eiríkur Bóasson, einn liðsmanna, mikill tónlistarmaður og tekur nú þátt í uppfærslu Freyvangsleikhússins á hinu sígilda verki Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason. Hann gat því ekki farið utan með öðrum liðsmönnum í liðinni viku og komst ekki til Finnlands fyrr en í morgun. Páll Tómasson, nefndarmaður í Krullunefnd ÍSÍ og stjórnarmaður í Krulludeild Þróttar, hljóp í skarðið og spilaði fyrstu þrjá leiki íslenska liðsins. Okkar menn áttu upphaflega að leika um kl. 11:00 að íslenskum tíma í morgun en fengu leiknum flýtt þar sem Páll átti flug heim um hádegisbil og Eiríkur var að koma til Finnlands á svipuðum tíma. Páll náði því að leika leikinn gegn Finnum í morgun en svo kom Eiríkur inn í liðið gegn Englendingum nú síðdegis í dag. Þeir Gísli Kristinsson, Kristján Bjarnason og Kristján Þorkelsson hafa spilað alla þrjá leikina til þessa og munu spila þá leiki sem eftir er, ásamt Eiríki.