HM eldri leikmanna í krullu: Skellur gegn Bandaríkjamönnum

Bandaríkjamenn tóku okkar menn 8-0 á HM eldri leikmanna í Finnlandi í dag.

Leikurinn gegn Bandaríkjamönnum byrjaði með sama hætti og á móti Englendingum í gær, Íslendingar hófu leikinn, Bandaríkjamenn áttu síðasta stein í fyrstu umferðinni en hvorugt liðið skoraði. Þá kom skellurinn, Bandaríkjamenn skoruðu fimm stig í annarri umferðinni og unnu síðan einnig þriðju og fjórðu umferðina og staðan þá orðin 7-0 að loknum fyrri hluta leiksins. Bandaríkjamenn bætu síðan við enn einu stiginu í fimmtu umferðinni og eftir að sjöttu umferð lauk án skors og staðan 8-0 Bandaríkjamönnum í vil ákváðu okkar menn að láta gott heita.

Ísland  0 0 0 0 0 0 x 0
Bandaríkin  0 5 1 1 1 0 x 8

Þó svo það sé ekki til gamans þegar stórt er skorað má þess þó geta í þessu sambandi að þessi fimma sem Bandaríkjamenn skoruðu hjá okkar mönnum er alls ekki hæsta skorið sem sést hefur á mótinu. Eins og krulluáhugafólk veit er mest hægt að skora átta stig í hverri umferð. Skotar gerðu sér lítið fyrir og skoruðu sjö stig í einni umferðinni gegn Norðmönnum og unnu leikinn stórt, 17-2.  

Íslendingar leika tvo leiki á morgun, fyrst gegn Nýja-Sjálandi klukkan 6 í fyrramálið að íslenskum tíma og síðan klukkan fjögur síðdegis gegn Skotum.

Mögulegt er að fylgjast með framgangi leikja umferð fyrir umferð á meðan þeir standa yfir á úrslitavef finnska krullusambandsins.  Þar eru að sjálfsögðu öll úrslit og staðan í keppninni auk úrslita og stöðu í fyrsta Heimsmeistaramótinu í tvenndar leik (Mixed Doubles) í krullu. Þar eigum við Íslendingar engan fulltrúa þó svo mótið hafi verið opið öllum aðildarþjóðum Alþjóða krullusambandsins.