HM eldri leikmanna í krullu: Tap gegn Nýja-Sjálandi

Íslendingar komust yfir gegn Nýja-Sjálandi en fengu stóran skell í lokin og töpuðu, 5-9.

Íslendingar lentu undir í byrjun en þó var munurinn ekki mikill og staðan 1-3 þegar fjórum umferðum var lokið. Þegar síðari hluti leiks hófst náðu okkar menn að svara fyrir sig, jöfnuðu 3-3 og náðu síðan tveggja stiga forystu, 5-3 að loknum sex umferðum. En þá fengu þeir stærsta skell sinn á mótinu til þessa þegar Ný-Sjálendingar skoruðu sex stig í sjöundu umferðinni, úrslitin 5-9.

Ísland  0 0 1 0 2 2 0 x 5
Nýja-Sjáland  1 1 0 1 0 0 6 x 9

Íslendingar leika næsta leik sinn klukkan fjögur í dag gegn Skotum. Skotar hafa unnið fimm leiki til þessa en aðeins tapað einum. Okkar menn eru núna í sjöunda sæti riðilsins með einn sigur og fimm töp. Fyrir neðan okkur eru Ítalir, einnig með einn sigur, og Norðmenn sem enn eru án sigurs. Síðasti leikur okkar á mótinu verður einmitt gegn Ítölum á morgun og hefst hann kl. 17:00 að íslenskum tíma.

Mögulegt er að fylgjast með framgangi leikja umferð fyrir umferð á meðan þeir standa yfir á úrslitavef finnska krullusambandsins. Þar eru að sjálfsögðu öll úrslit og staðan í keppninni.