Karfan er tóm.
Kvennalandsliðið í íshokkí verður á svellinu í Skautahöllinni í Laugardal þessa vikuna þar sem liðið spilar í 2. deild B í Heimsmeistaramótinu. Fyrsti leikurinn er í kvöld. Tvær af hverjum þremur í liðinu eru í SA og þrjár að auki fyrrum leikmenn SA.
Mótið verður formlega sett í kvöld kl. 19.45, fyrir fyrsta leik Íslands, en fyrstu leikirnir verða síðdegis í dag. Ísland mætir Tyrklandi í kvöld.
Af 21 leikmanni landsliðsins eru 14 úr SA: Anna Sonja Ágústsdóttir, Bergþóra Heiðjört Bergþórsdóttir, Diljá Sif Björgvinsdóttir, Hrund Thorlacius, Jónína Margrét Guðbjartsdóttir, Thelma María Guðmundsdóttir, Silja Rún Gunnlaugsdóttir, Eva María Karvelsdóttir, Katrín Ryan, Sarah Shantz-Smiley, Arndís Eggerz Sigurðardóttir, Linda Brá Sveinsdóttir, Védís Áslaug Valdemarsdóttir og Guðrún Marín Viðarsdóttir. Diljá Sif er nýliði í hópnum. Landsliðsþjálfari er Ben DiMarco, leikmaður SA.
Leikjadagskráin er þétt, liðið mætir Slóvenum á þriðjudag, Króötum á fimmtudag, Spánverjum á föstudag og Belgum á sunnudag.
Á heimasíðu mótsins má finna ítarlegri upplýsingar og svo auðvitað alla tölfræði um leikina þegar þar að kemur.
Áskorun frá stelpunum í landsliðinu hefur vakið athygli, en þær hafa skorað á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að halda áfram þar sem frá var horfið þegar hann mætti á hokkíleik vestanhafs - og mæta leiki íslenska liðsins. Áskorunina birtu stelpurnar á upplýsingasíðu liðsins á Facebook:
"Kæri Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Þann 7. mars síðastliðinn birtust fréttir í fjölmiðlum landsins um þann stórmerka viðburð sem þú varst viðstaddur og fyrirsagnir frétta herma að þú hafir vakið sannkallað lukku. Um er að ræða hokkíleik í NHL-deildinni, þar áttust við Edmonton Oilers og New York Islanders, en Oilers lögðu Islanders með 3 mörkum gegn 2. Nú er komið að heimsmeistaramóti kvenna í íshokkíi og við, kvennalandsliðið, eigum fyrsta leik annað kvöld (mánudaginn 24. mars) klukkan 20:00 gegn Tyrklandi. Þar sem mótið er haldið í Skautahöllinni í Laugardal, Reykjavík, skorum við á þig að vera viðstaddur þennan viðburð en fáar afsakanir eru teknar gildar þar sem fregnir herma að þú sért sannur íshokkíaðdáandi.
Hlökkum til að sjá þig í stúkunni!
Landsliðshópur íslenskra kvenna í íshokkíi."
Nokkrar fréttir og viðtöl á mbl.is sem tengjast mótinu:
Landsliðshópurinn
Þrekæfing í ófærðinni
Áskorunin