Karfan er tóm.
Það er stór og skemmtileg hokkíhelgi framundan þar sem karla, kvenna og U18 liðin okkar spila öll á heimavelli. Veislan hefst strax á föstudag þegar U18 liðið okkar tekur á móti Birninum/Fjölni kl. 16:30 í Skautahöllinni á Akureyri. Á laugardag taka SA Víkingar á móti Birninum/Fjölni í Hertz-deild karla kl. 16:45 og við endum svo veisluna á fyrsta heimaleik SA kvenna kl. 19:00 á laugardag.
SA Víkingar og Björninn/Fjölnir berjast nú á toppi Hertz-deildar karla en Björninn er með 12 stig og Víkingar 9 stig þegar bæði lið hafa spilað 4 leiki. SA Víkingar tefla fram gríðarlega ungu og efnilegu liði í vetur þar sem allir leikmenn liðsins eru uppaldir í félaginu. Aðgangseyrir 1000 kr. en Víkingar ætla að bjóða öllum 18 ára og yngri frítt á leikinn á laugardag. Í Hertz-deild kvenna hefur SA unnið tvo leiki og RVK einn á tímabilinu en leikirnir hafa verið gríðarlega jafnir og spennandi hingað til og má því búast við hörkuleik á laugardag. SA liðið í kvennaflokki er mikið breytt frá síðasta tímabili þar sem 5 leikmenn úr liði síðasta tímabils spila nú erlendis. Á móti hefur liðið endurheimt þær Söruh Smiley, Önnu Sonju Ágústsdóttur og Sólveig Smáradóttur ásamt nokkrum ungum stúlkum sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Það er frítt inn á kvennaleikinn og við hvetjum hokkíáhugafólk að taka helgina frá og mæta í stúkuna og sjá allt okkar frábæra íþróttafólk keppa um komandi helgi.