Hrafnhildur Ósk er skautakona Listhlaupadeildar

Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir
Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir


Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir er skautakona ársins úr röðum Listhlaupadeildar Skautafélags Akureyrar. Hrafnhildi var veitt viðurkenning í fjölskyldutíma deildarinnar á svellinu á gamlársdag.

Við val á skautakonu ársins 2012 er árangur á mótum hérlendis og erlendis skoðaður. Ástundun íþóttarinnar ásamt íþróttamannslegri hegðun. Íþróttamaðurinn þarf að hafa þann eiginleika að geta fagnað sínum sigrum ásamt sigrum annarra innan sem utan félags, félagsandinn er ekki síður mikilvægur en velgengni í keppnum. Skautakona ársins þarf að vera góð fyrirmynd fyrir iðkendur og félagið í heild sinni. Að öllu þessu upptöldu ákvað stjórn LSA að veita Hrafnhildi Ósk Birgisdóttur titilinn Skautakona ársins 2012.

Hrafnhildur Ósk hefur staðið sig mjög vel á árinu, hún varði titilinn Akureyrarmeistari og einnig hefur hún staðið sig vel á mótum ÍSS árið 2012. Hrafnhildur er Bikarmeistari ÍSS og skilaði hún sér í öðru sæti bæða á Vetrarmóti og Haustmóti ÍSS og í þriðja sæti á Íslandsmeistaramótinu. Þá hefur hún verið í landsliði ÍSS allt árið 2012 og byrjaði árið á ISU móti sem haldið var í Riga í Lettlandi, því næst var Norðurlandamótið og var það haldið í Finnlandi þetta árið. Þá var haldið á ISU mót í Luxemborg og seinasta mótið sem landsliðið fór á var ISU mót sem haldið var í Linz í Austuríki. Hrafnhildur Ósk hefur staðið sig mjög vel á öllum þessum mótum og er fyrirmyndar skautari.