Karfan er tóm.
Fyrsti innanbúða slagurinn í Íslandsmóti kvenna í Íshokkí fór fram í gærkveldi þegar Ásynjur mættu Ynjum. Lokatölur leiksins urðu 6-0 Ásynjum í vil. Leikurinn var hin mesta skemmtun þrátt fyrir nokkra yfirburði Ásynja en mikið var um fallegt spil.
Leikurinn var nokkuð jafn í upphafi, Ásynjur héldu pekkingum betur en Ynjur voru þéttar í hlutlausasvæðinu og sóttu á skyndisóknum. Eftir sem leið á lotuna fundu Ásynjur fleiri leiðiðir inn í varnarsvæði Ynja sem voru fljótar til baka og þéttu svæðið framan við markið og hleyptu Ásynjum ekki í færi nálægt markinu. Ásynjur létu pökkinn ganga vel á varnarmenn sína í sóknarsvæðinu og fengu mikið af skotum af löngu færi en Elise í marki Ynja varði eins og berserkur þrátt fyrir mannmergð framan við markið sem gerðu henni erftitt fyrir að sjá skotin koma. Sókninn harðnaði þegar leið á lotuna og uppskáru Ásynjur Power play þegar tæp mínúta var eftir og nýttu það fljótt þar sem Arndís Sigurðardóttir smellti einni snuddu af bláu línunni meðan samherjar lokuðu á sjónlínu Elise í markinu. 1-0 forysta eftir fyrstu lotu.
Önnur lotu hófst svipað og sú fyrri en eftir 3 mínútna leik fann Linda Sveinsdóttir leið fram hjá Elise í markinu. Sóknin hélt áfram hjá Ásynjum og pressuðu stíft þar til Birnar Baldursdóttir fann lausan pökk við markið og skoraði fallegt bakhandar mark upp í þaknetið. Ynjur gáfust þó ekki upp og vörðust áfram vel og fengu ágætis færi úr hraðaupphlaupum í kjölfarið en Heiðrún Steindórsdóttir var yfirveguð í marki Ásynja.
Sami barningurinn hélt áfram í 3. Lotu, Ásynjur héldu pekkinum betur en Ynjur gerðu þeim erfitt fyrir að komast í góð færi. Þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum opnuðust flóðgáttir Ynja. Guðrún Viðarsdóttir skoraði fyrsta mark lotunar en aðeins 5 mínútum seinna skoraði Katrín Ryan eftir undirbúning Hrannar Kristjánsdóttur. Birna Baldursdóttir skoraði svo síðasta mark leiksins þegar hún fékk að ganga óáreitt inn að marki Ynja og kláraði snyrtilega með skoti yfir hanskann. Ásynjur voru í heildina sterkari eins og lokatölur gefa til kynna en liðið lætur pökkinn ganga vel sín á milli líkt og vel smurð vél. Nokkuð vantar upp á leikæfingu hjá Ynjum sem spiluðu sinn fyrsta leik en ekki vantar snerpuna og hraðann. Ungt lið Ynja á eflaust eftir að vaxa þegar líður á veturinn með meiri leikæfingu og reynslu.
Ásynjur eru því með fullt hús stiga eftir 2 leiki og eiga næst leik við Björninn í Egilshöll á laugardag. Ynjur mæta svo SR á heimavelli laugardaginn 4. október.