Nú er ýmislegt að skýrast varðandi fyrirkomulagið á Ice Cup. Liðsstjórar og aðrir þátttakendur eru beðnir um að kynna
sér vel allar upplýsingar um framkvæmd mótsins.
Excel-skjal með upplýsingum um reglur, liðin og fleira má finna hér. Á opnunarhófinu verður dregið saman í leiki fyrstu umferðar. Ef einhverjir hafa séróskir um
leiktíma vegna árekstra við vinnu eða annað óviðráðanlegt (að langa ekki til að fara snemma á fætur er ekki tekið gilt) -
þá eru liðsstjórar beðnir um að hafa samband við keppnisstjórn (haring@simnet.is, 8242778) fyrir dráttinn á miðvikudagskvöld.
Mögulega er hægt að stýra tímasetningum fyrir lið á fimmtudagskvöldið (byrja kl. 18 eða 20.30) og hugsanlega á föstudagsmorguninn
(byrja kl. 9.00 eða 11.30). Eftir það ráðast leiktímar algjörlega af stöðu liðanna.
Sú breyting verður gerð núna frá því í fyrra að öll liðin leika í einum potti fyrstu þrjá leikina en
síðan verður skipt í A- og B-deild. Þetta var tekið upp aftur nú til að gefa liðum í neðri hluta keppninnar meira til að keppa að
undir lok mótsins. Hins vegar þýðir þetta að ekki er vitað um leiktíma liða á föstudagsmorgni fyrr en úrslit
fimmtudagskvöldsins liggja fyrir og leiktíma eftir hádegi á föstudegi fyrr en úrslit í tveimur fyrstu umferðunum (kl. 9.00 og 11.30) á
föstudag liggja fyrir. Í versta falli gætu einhver lið lent í því að þurfa að spila bæði kl. 11.30 og 14.30 á
föstudeginum - keppnisstjóri mun gera allt sem í hans valdi stendur til að forða því.
Leikir
- Fimmtudagur kl. 18.00 og 20.30
- Föstudagur kl. 09.00, 11.30, 14.30 og 17.00
- Laugardagur kl. 08.30 og 11.00 - úrslitaleikir kl. 14.00
Reglur
- 1. Keppnisfyrirkomulag
Leiknar eru fjórar umferðir samkvæmt svokölluðu Schenkel-kerfi og síðan
úrslitaleikir um verðlaunasæti. Í upphafi eru lið dregin saman til fyrstu umferðar, en eftir það leika saman hverju sinni lið sem eru sem næst
hvort öðru í röðinni eftir því sem mögulegt er. Eftir þrjár umferðir fara átta efstu liðin í A-deild en sex þau
neðstu í B-deild. Síðan er spiluð ein umferð til viðbótar innan deildanna. Að lokum spila tvö efstu liðin í A-deild um gullverðlaun,
næstu tvö um bronsverðlaun og tvö efstu liðin í B-deild spila um sigur í B-deildinni.
- 2. Röðun
Eftir hverja umferð er liðunum raðað eftir stigum. Ef lið eru jöfn að stigum raðast þau eftir fjölda unninna umferða. Ef þau eru þá
enn jöfn raðast þau eftir fjölda skoraðra steina. Ef það dugar ekki til að ákvarða hvaða lið leika til úrslita um verðlaun skal
fara fram skotkeppni milli viðkomandi liða. Þar renna fjórir úr hvoru liði til skiptis steini að miðju hrings. Leyft er að sópa. Fjarlægð
frá miðju hrings að steini er mæld og lögð saman fyrir allt liðið. Það lið sem þannig fær lægri samtölu telst ofar í
röðinni.
- 3. Leikir
Í almennu keppninni eru allir leikir 7 umferðir og skulu þær allar kláraðar. Úrslitaleikir um sæti eru 8 umferðir (heimilt að hætta leik
fyrr). Kastað er upp á (eða snúið steini) hvort liðið á val um síðasta stein. Ekki er gefinn tími til upphitunar- eða
æfingaskota við upphaf leikja. Almennt viðmið er að ekki taki lengri tíma en 15 mínútur að leika hverja umferð. Krullufólk er hvatt til
að haga leik sínum þannig að ekki komi til óþarfa tafa. Verið tilbúin þegar kemur að ykkur og takið ekki óhóflega langan
tíma til umhugsunar. Jafntefli eru leyfð. Tvö stig fást fyrir sigur, eitt fyrir jafntefli.
- 4. Leikjadagskrá
Hvert lið leikur einn leik á fimmtudegi (3. maí), tvo leiki á föstudegi (4. maí) og einn leik fyrir hádegi á laugardegi (5. maí). Fjögur
efstu liðin í A-deild og tvö efstu í B-deild leika síðan úrslitaleiki eftir hádegi á laugardag. Leikir hefjast kl. 18.00 og 20.30 á
fimmtudag, kl. 09.00, 11.30, 14.30 og 17.00 á föstudag og kl. 08.30 og 11.00 á laugardag. Úrslitaleikir hefjast kl. 14.00 á laugardag.
- 5. Reglur WCF
Að öðru leyti gilda reglur Alþjóða krullusambandsins, WCF, eftir því sem við á.
Skemmtanir
- Opnunarhóf
Miðvikudagur 2. maí kl. 21.00 - Vitinn við Strandgötu (sami staður og í fyrra).
Dregið verður til fyrstu umferðar í opnunarhófinu.
- Pylsupartí
Grill við Skautahöllina og heimsókn í verbúð
Föstudagskvöld eftir síðustu leiki.
- Lokahóf
Á efri hæð Greifans, laugardagskvöld. Húsið opnað kl. 19.30, reiknum með að borðhald hefjist um kl. 20.30. Verðlaun og viðurkenningar,
skemmtiatriði. Góðar hugmyndir, fyndnar ræður eða önnur skemmtilegheit eru vel þegin. Innifalið í þátttökugjaldi hvers liðs
eru fjórir miðar á lokahófið. Miðar fyrir fimmta leikmann og maka verða til sölu í sjoppunni á meðan mótið stendur yfir.