Ice Cup: Eitt lið hætt við út af truflunum á flugsamgöngum

"Sweepless in Seattle" ætlaði þetta lið að kalla sig á Ice Cup. Því miður hefur liðið hætt við að koma - en kemur vonandi á næsta ári í staðinn.
Eyjafjallajökull er enn helsta áhyggjuefni krullufólks í sambandi við þátttökuna í Ice Cup.

Eitt af erlendu liðunum sem höfðu skráð sig til þátttöku á Ice Cup hefur nú formlega tilkynnt um þá ávkörðun að draga sig úr keppninni. Ástæðan er einfaldlega sú óvissa sem er til staðar í flugsamgöngum vegna eldsossins í Eyjafjallajökli. Þetta er liðið "Sweepless in Seattle" sem kemur frá Garanite krulluklúbbnum í Seattle. Tvö úr liðinu eru núna á siglingu um Miðjarðarhafið en tvö eru enn heima í Seattle. Vegna óvissunnar um flugsamgöngur vildu þau ekki lenda í því að aðeins helmingur liðsins kæmist til landsins og ákváðu því að hætta við að þessu sinni. Þau vonast auðvitað til að komast hingað á næsta ári í staðinn og að þá verði ekki eldgos í gangi.

Undirbúningsnefndin fyrir Ice Cup hafði gengið frá reglum um keppnisfyrirkomulag fyrir 16 lið en það fyrirkomulag er nú í uppnámi þar sem aðeins fimmtán lið eru eftir. Ef ske kynni að enn sé krullufólk sem ekki er komið í lið fyrir Ice Cup en hefur áhuga á að vera með ættu viðkomandi að hafa samband sem allra fyrst við skipuleggjendur mótsins. Hugsanlegt er að hægt sé að koma saman liði og fylla þannig aftur 16 liða kvótann. Skráning á nýju krullufólki/nýju lið þyrfti þá að liggja fyrir núna um helgina. Hafið samband við Harald Ingólfsson, s. 824 2778, ef þið hafið áhuga á að mynda lið, vera með í liði eða vitið um einhvern sem hefur áhuga.