Ice Cup: Gosið hefur undarlegar afleiðingar

Gosið í Eyjafjallajökli hefur eða gæti haft áhrif á ferðir þeirra sem eru að koma á Ice Cup. Enn standa þó vonir til þess að allir komist til landsins.

Fyrstu erlendu keppendurnir á Ice Cup eiga að koma til landsins á morgun, föstudag. Þetta eru fjórir Skotar sem ætluðu að fljúga frá Glasgow til Keflavíkur, leigja sér bíl í Reykjavík og aka um Suður- og Austurland og síðan til Akureyrar í tæka tíð áður en mótið hefst næstkomandi fimmtudag. Óvissa um opnun hringvegarins og um akstur í öskufallinu varð hins vegar til þess að fólkið afpantaði gistingu sem það hafði pantað fyrir austan gos og ákvað að ferðast um Suðurland, kíkja á gosið og snúa svo við og keyra "hefðbundna" leið norður frá Reykjavík til Akureyrar. En nú lítur út fyrir að enn verði breytingar á "akstursleiðum" þessa fólks.

Þegar þetta er ritað lítur út fyrir að Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur verði lokaðir á morgun og því verði fluginu frá Glasgow beint til Akureyrar. Hvað gerist þá? Fólkið sem á endanum er á leiðinni til Akureyrar en ætlaði alls ekki að vera komið svona fljótt hingað fær far með rútu á vegum Icelandair til Reykjavíkur þar sem það nær í bílaleigubílinn og ferðast svo um Suðurland og aftur norður til Akureyrar næstkomandi miðvikudag.