Karfan er tóm.
Eðli málsins samkvæmt er alltaf markmiðið að fá hingað til lands nokkur erlend lið til að keppa á Ice Cup, jafnvel þótt eða kannski einmitt vegna þess að mörg þeirra eru það sterk að íslensku liðin eiga litla möguleika á móti þeim. En í því felst einmitt eitt af því skemmtilega við Ice Cup, við fáum að spila við önnur lið en þau 8-10 lið sem við spilum við aftur og aftur yfir veturinn.
Hinn tölfræðióði krullufréttaritari hefur farið í gegnum úrslit Ice Cup frá upphafi og tekið saman hvaða lið og einstaklingar hafa unnið til verðlauna. Svo skemmtilega vill til að sá hinn sami hefur oftast einstaklinga unnið til verðlauna, alls fjórum sinnum, tvisvar silfur og tvisvar brons. Fyrsti Íslendingurinn til að vinna gullverðlaun á mótinu var Viðar Jónsson árið 2006 þegar hann spilaði með liði sem kallaði sig Ókunnugir, ásamt þremur erlendum keppendum. Skytturnar eru eina liðið sem hefur unnið Ice Cup. Það gerðist í fyrra en þá var reyndar ekkert heilt erlent lið með í mótinu, án þess að það dragi úr árangrinum sem slíkum. Enn eigum við þó eftir að sjá íslenskt lið vinna Ice Cup þar sem við eigum í höggi við erlend lið. Skytturnar eru reyndar eina liðið sem hefur unnið tvisvar til verðlauna á Ice Cup, fyrra skiptið var 2005 þegar liðið fékk bronsverðlaun en þá voru tveir í liðinu sem einnig voru í því 2009, Árni Arason og Jón S. Hansen.
Nokkrir einstaklingar hafa unnið oftar en einu sinni til verðlauna á Ice Cup, Haraldur Ingólfsson (4), Ágúst Hilmarsson (3), Árni Arason (3), Sigurgeir Haraldsson (2), Jón S. Hansen (2), Hallgrímur Valsson (2).
Þau lið sem hafa unnið Ice Cup eru Team Willie Arnason (2004), Margarita Canada (2005), Ókunnugir (2006), Team TCC (2007), Stonehangers (2008) og Skytturnar (2009). Nokkur íslensk lið hafa unnið til silfurverðlauna: Fálkar (2004), Fimmtíuplús (2005), Víkingar (2008) og Mammútar (2009). Garpar, Skytturnar og Riddarar hafa unnið til bronsverðlauna en auk þess voru tveir Íslendingar í liði H4 sem vann bronsverðlaun 2008.
Yfirlit um alla verðlaunahafa frá 2004-2009 má sjá í pdf-skjali hér.