Karfan er tóm.
Þátttakendur á Ice Cup verða af fimm þjóðernum, koma frá Kanada, Bandaríkjunum, Danmörku, Hollandi og Íslandi. Þrír af erlendu keppendunum eru að koma á Ice Cup í þriðja sinn.
Alls koma fjórtán erlendir keppendur frá fimm löndum á Ice Cup eða þrjú og hálft lið.
Fyrst ber að sjálfsögðu að telja hinar bandarísku vinkonur okkar en þrjár þeirra eru nú að koma í þriðja skiptið á Ice Cup og sú fjórða er að koma í annað sinn. Þetta eru auðvitað þær Sue Haigney, Sue Porada, Gwen Krailo og Judy Melzer. Þær komu fyrst hingað til keppni á Ice Cup 2005 og enduðu þá í fimmta sæti. Þrjár þeirra komu aftur í fyrra, fengu tvær íslenskar krullukonur til liðs við sig og enduðu í sjöunda sæti. Þær keppa undir merkjum GNCC – eða Grand National Curling Club, sem er samband krulluklúbba í norðausturhluta Bandaríkjanna.
Annað lið kemur vestan úr Ameríku, skipað konu frá Toronto í Kanada og þremur körlum frá Minnesóta í Bandaríkjunum. Liðið keppir undir merkjum Margarita klúbbsins, Margarita Can/Am coctail. Þetta eru þau Greg Wright fyrirliði, Leslie Prince, Bob Stark og Paul Bjorklund. Í hópnum eru reyndar fimm manns því eiginkona fyrirliðans, Toni Stagliano, er með í för. Samkvæmt upplýsingum sem krulluvefurinn hefur aflað sér er hér á ferðinni hópur af litríku og skemmtilegu fólki sem væntanlega fellur vel inn í hópinn hér.
Frá Hollandi koma hjón, Alie og Gerrit Jan Scholten. Hann er formaður krullusambandsins þar í landi. Þau hjónin fréttu af Ice Cup í gegnum Ben Wiegers sem hingað kom (og sigraði) fyrir tveimur árum. Þau Alie og Gerrit Jan koma aðeins tvö en tveir leikmenn úr Fálkum (eða H2) ganga til liðs við þau og mynda þannig fjögurra manna lið. Engar fréttir höfum við af afreki þeirra á krullusviðinu en vitað er að hér er indælisfólk á ferðinni.
Síðast en ekki síst skal telja fjóra unga krullustráka frá Danmörku. Í fyrra fengum við úrval kvenna frá Tårnby klúbbnum en núna fáum við strákaúrval. Einn þeirra, fyrirliðin Martin Monhart Poulsen, var í liði Dana sem keppti á heimsmeistaramóti yngri leikmanna í Svíþjóð í upphafi árs. Liðið hefur sína eigin heimasíðu, www.stonehangers.dk/. Í liðinu eru þeir Martin Poulsen, Martin Uhd Grønbech, Daniel Abrahamsen og Morten Svendsen. Til gamans má geta þess að þjálfari liðsins – sem þó kemur ekki með strákunum hingað – er Finn Nielsen en hann kom hingað vorið 2003 ásamt Johannesi og Kirsten Jensen frá Tårnby klúbbnum til keppni á Gimli Cup það árið. Það mót fór einmitt fram 1. og 2. maí þannig að þegar við hefjum keppni á Ice Cup þetta árið verða liðin nákvæmlega fimm ár frá þeim viðburði. Dönsku strákarnir tóku meðal annars þátt í Tårnby Cup síðastliðið haust þar sem Akureyringar áttu einnig fulltrúa. Strákarnir enduðu þar í áttunda sæti. Myndina sem fylgir þessari frétt fengum við frá fyrirliðanum en þeir klæddu sig í þessa skemmtilegu búninga á Tårnby Cup.
Innlendu liðin sem taka þátt þarf varla að kynna. Því miður kemur ekkert lið af suðvesturhorninu að þessu sinni. Tíu heimalið taka þátt og eru þau að mestu skipuð eins og á mótum vetrarins, með nokkrum undantekningum þó. Þetta eru Bragðarefir, Fífurnar, Garpar, Kústarnir, Mammútar, Norðan 12, Riddarar, Skytturnar, Svarta gengið og Víkingar.
Liðin sem taka þátt eru semsagt fjórtán, Keppnisfyrirkomulag er nánast eins og tvö undanfarin ár en það verður nánar útskýrt hér á vefnum á næstu dögum.