Karfan er tóm.
Íslandsmótið í krullu 2011 hefst mánudagskvöldið 23. janúar.
Boðað er til fundar með krullufólki í fundarsal Skautahallarinnar á Akureyri mánudagskvöldið 16. janúar kl. 19.30 þar sem fyrirkomulag mótsins verður kynnt og dregið um töfluröð. Einnig verða á fundinum ræddar og kynntar hugmyndir um sérstakt mót með öðru fyrirkomulagi sem spilað yrði á miðvikudagskvöldum í vetur fyrir það krullufólk sem hefur tök á að mæta á þeim kvöldum.
Skráning - nafn liðs og nöfn minnst fjögurra en mest fimm liðsmanna - tylkinnist til Gísla Kristinssonar, formanns Krullunefndar ÍSÍ, í netfangið gisli@arkitektur.is eða í síðasta lagi á fundi Krulludeildar um mánudagskvöldið 16. janúar.
Þátttökugjald er 7.000 krónur á lið og greiðist í einu lagi við skráningu. Bankareikningur er 0302-26-006496, kt. 301050-2599. Einnig má greiða gjaldið beint til Ágústs Hilmarssonar, gjaldkera Krullunefndar ÍSÍ. Eindagi greiðslu er 28. febrúar. Hafi lið ekki greitt þátttökugjald á eindaga er keppni þess þar með lokið og árangur þess strikast út úr keppninni. Jafnframt missa allir leikmenn liðsins þátttökurétt í næsta Íslandsmóti.
Keppnisfyrirkomulag: Miðað er við að leikin verði einföld umferð, allir við alla, en síðan úrslitakeppni fjögurra efstu liða. Ekki er búið að ákveða hvenær úrslitakeppnin fer fram.
Leikdagar: Aðeins verður leikið á mánudagskvöldum, nema hvað hugsanlega þarf einhvern tímann að leika frestaða leiki á miðvikudagskvöldum ef þannig stendur á. Fyrsti leikdagur er mánudagurinn 23. janúar og verður leikið á hverju mánudagskvöldi þar til mótinu er lokið, hugsanlega þó með hléi eitt mánudagskvöld.
Breytingar: Athygli er vakin á því að allir leikir verða átta umferðir að lengd, í stað sex umferða eins og verið hefur hér. Að öðru leyti er keppnisfyrirkomulag og reglur þær sömu og áður. Jafntefli eru ekki leyfð og því leikin aukaumferð ef jafnt er að loknum átta umferðum. Upphitun er tímasett eins og áður, en er nú stytt í fjórar mínútur (var fimm). Að lokinni upphitun tekur lið skot að miðju og ræður árangur úr skotinu hvort liðið hefur val um síðasta stein. Jafnframt getur meðaltal úr skotum að miðju (að slepptu hæsta gildi hvers liðs) ráðið röð liða sem enda jöfn að vinningum og eru jöfn í innbyrðis viðureignum. Ef lið eru hins vegar jöfn að vinningum í sæti/sætum sem gefa þátttökurétt í úrslitakeppninni verður skorið úr því með aukaleik(jum) hvaða lið fer í úrslitakeppnina, sbr. reglur um "tie-breakers".
Að öðru leyti er vísað í mótareglur
Krulludeildar (sbr. þó átta umferðir í stað sex) og Krullureglur Alþjóða Krullusambandsins. Krullufólk er hvatt til að kynna sér og læra krullureglurnar.