Karfan er tóm.
Íslandsmótið í krullu 2011 fer fram í Skautahöllinni á Akureyri í janúar, febrúar og mars. Áætlað er að keppni hefjist mánudagskvöldið 31. janúar. Keppnisfyrirkomulag (fjöldi umferða) fer eftir fjölda liða sem taka þátt. Líklegt er að liðin sem taka þátt leiki tvöfalda umferð, allir gegn öllum, auk þess sem að þeirri keppni lokinni fari fram úrslitakeppni. Ætlunin er að leikið sé á mánudags- og miðvikudagskvöldum frá og með 31. janúar og eitthvað fram í mars (fer eftir fjölda liða), þó með áherslu á að oftar sé leikið á mánudagskvöldum en frídagar eða frestaðir leikir lendi á miðvikudögum. Tilkynnt verður um nánari útfærslu á mótinu og keppnisreglum þegar fjöldi þátttökuliða liggur fyrir.
Tekið er við skráningum í mótið í síðasta lagi miðvikudagskvöldið 26. janúar. Þátttaka tilkynnist til Gísla Kristinssonar - gisli@arkitektur.is. Við skráningu skal taka fram nafn liðs, ásamt nöfnum liðsmanna, að lágmarki fjögurra og að hámarki fimm.
Þátttökugjald er 7.000 krónur á lið og greiðist í einu lagi við skráningu. Bankareikningur er 0302-26-006496, kt. 301050-2599. Einnig má greiða gjaldið beint til Ágústs Hilmarssonar, gjaldkera Krullunefndar ÍSÍ. Eindagi greiðslu er 28. febrúar. Hafi lið ekki greitt þátttökugjald á eindaga er keppni þess þar með lokið og árangur þess strikast út úr keppninni. Jafnframt missa allir leikmenn liðsins þátttökurétt í næsta Íslandsmóti.
Sigurlið Íslandsmótsins vinnur sér rétt til þátttöku í Evrópumótinu í krullu.
Til upplýsingar um Evrópumót: Keppni í þeim flokkum þar sem Íslendingar eiga rétt á að senda lið fer fram í Tårnby krulluhöllinni í Danmörku í september 2011. Tvö efstu liðin í C-keppni karla og kvenna vinna sér rétt til þátttöku í B-keppni Evrópumótsins sem fram fer í Moskvu í desember 2011. Nákvæm tímasetning á mótunum liggur ekki fyrir. Ísland er í C-hópi Evrópumótsins, og á það við hvort sem um væri að ræða karla- eða kvennalið. Ísland hefur aldrei sent lið til keppni á Evrópumóti kvenna en þrisvar í karlaflokki. Evrópukeppni blandaðra liða (EMCC), þar sem lið eru skipuð tveimur karlmönnum og tveimur konum, er opin og því keppa lið frá öllum þjóðum Evrópu í sama flokki og er liðunum skipt í riðla.