Íslandsmótið í krullu: Garpar á toppnum

Mynd: HI (28.12.2013)
Mynd: HI (28.12.2013)


Garpar standa nú með pálmann í höndunum í deildarkeppni Íslandsmótsins í krullu þegar ein umferð er erftir. Þrjú lið eru örugg í úrslitakeppnina.

Garpar hafa unnið alla leiki sína til þessa, sigruðu Freyjur 10-2 í 4. umferðinni í gærkvöldi. Ice Hunt var taplaust fyrir gærkvöldið en varð að játa sig sigrað gegn Mammútum í jöfnum leik, lokatölur 6-4.

Garpar og Ice Hunt mætast í lokaumferðinni. Þar nægir Görpum auðvitað sigur til að halda efsta sætinu. Ef Ice Hunt hins vegar vinnur Garpa fer niðurstaðan eftir því hvort Mammútar vinna Víkinga eða ekki. Verði Mammútar, Garpar og Ice Hunt þrjú jöfn og efst yrðu innbyrðis viðureignir jafnar (öll með einn sigur úr þeim) og því myndi röðin ráðast af skotum að miðju. Þar standa Garpar best fyrir lokaumferðina, þá Ice Hunt og Mammútar koma fast á hæla þeim. 

Ef Víkingar tapa sínum leik verða Freyjur einar í fjórða sætinu og fara því í úrslitakeppnina. Vinni Víkingar verða liðin jöfn með einn vinning og þá þarf aukaleik (tie breaker) til að skera úr um hvort liðið fer í úrslitakeppnina. Mammútar, Garpar og Ice Hunt eru örugg um sæti í úrslitunum, bara spurning hvaða lið fara í leik 1v2 og hvaða lið í 3v4.

Til upprifjunar: Úrslitakeppnin fer þannig fram að í fyrstu umferð mætast liðin í 1 og 2. sæti og hins vegar liðin í 3. og 4. sæti. Sigurliðið úr 1v2 fer beint í úrslitaleikinn. Tapliðið mætir sigurliðinu úr 3v4 í undanúrslitum. Tapliðið úr 3v4 fer í bronsleik gegn tapliðinu úr undanúrslitunum. Dagsetningar fyrir leiki úrslitakeppninnar hafa ekki verið ákveðnar.

Lokaumferð deildarkeppninnar fer fram mánudagskvöldið 3. mars, leikir kvöldsins:

Víkingar - Mammútar
Ice Hunt - Garpar