Íslandsmótið i krullu: Mammútar sigruðu!

Mammútar, Íslandsmeistarar í krullu 2010. Frá vinstri: Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Freyr Númason, Je…
Mammútar, Íslandsmeistarar í krullu 2010. Frá vinstri: Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Freyr Númason, Jens Kristinn Gíslason og Haraldur Ingólfsson. Á myndina vantar varamann liðsins, Svein H. Steingrímsson.
Mammútar unnu Garpa í úrslitaleik Íslandsmótsins, Víkingar unnu Fífurnar í leik um bronsið.

Mammútar eru Íslandsmeistarar í krullu þriðja árið í röð eftir nauman 6-4 sigur á Görpum í jöfnum og spennandi úrslitaleik sem fram fór í Skautahöllinni á Akureyri síðdegis í gær.  Víkingar kræktu sér í bronsverðlaun en liðið sigraði Fífurnar nokkuð örugglega, 7-2. Mammútar hafa þar með orðið Íslandsmeistarar oftar en nokkurt annað lið, eða þrisvar sinnum.

Mammútar og Garpar mættust tvisvar í deildarkeppni Íslandsmótsins og þar höfðu Mammútar sigur í bæði skiptin. Liðin mættust síðan í fyrstu úrslitakeppninnar og þar höfðu Garpar betur. Mammútar fengu þó annað tækifæri eftir að hafa unnið Fífurnar í undanúrslitum og nýttu sér það, náðu að verja Íslandsmeistaratitilinn í hörkuleik gegn Görpunum. Garpar byrjuðu þó betur í leiknum og komust í 2-0 en Mammútar jöfnuðu og komust síðan yfir 3-2 eftir fjórar umferðir. Garpar svöruðu með 2 stigum í næstsíðustu umferðinni og staðan 4-3 þeim í vil þannig að Mammútar þurftu að skora að minnsta kosti eitt stig í lokaumferðinni til að tryggja sér aukaumferð. Lukkan snérist þeim í hag í lok leiksins þegar millimetraspursmál var um það hvort varnarsteinn var með í leik eða ekki og síðan þegar síðasti steinn Garpa setti stein Mammúta inn í hring en tók þeirra eigin stein út. Þar með höfðu Mammútar þrjá steina sem gáfu stig og þurftu ekki að senda síðasta steininn sinn.

Víkingar léku gegn Fífunum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og þá höfðu Fífurnar betur, 5-2. Fífurnar töpuðu síðan í undanúrslitum og mættu því Víkingum aftur þegar kom að bronsleiknum. Þá snérist leikurinn við, Víkingar höfðu völdin frá upphafi og skoruðu 7 stig í þremur fyrstu umferðunum, nánast gerðu út um leikinn í fyrri hlutanum. Fífurnar náðu aðeins að klóra í bakkann en þegar upp var staðið var staðan orðin 7-2 Víkingum í vil og Fífurnar urðu uppiskroppa með steina til að eiga möguleika á að jafna leikinn í lokaumferðinni.

Endanleg röð liðanna varð því sú sama og í deildarkeppninni, Mammútar fengu gullið, Garpar silfrið og Víkingar bronsið. Þetta eru sömu lið með sömu leikmenn innanborðs og unnu til verðlauna á Íslandsmótinu í fyrra - Garpar og Víkingar höfðu bara sætaskipti. Til gamans má einnig geta þess að þrír leikmenn hafa nú unnið oftast til verðlauna á Íslandsmótinu, alls sex sinnum, einn úr hverju þessara þriggja liða og þeir hafa allir unnið gullið tvisvar, silfrið tvisvar og bronsið tvisvar. Þetta eru Gísli Kristinsson úr Víkingum, Hallgrímur Valsson úr Görpum og Haraldur Ingólfsson úr Mammútum. Enn er það þó Sigurgeir Haraldsson sem oftast hefur orðið Íslandsmeistari, fjórum sinnum.

Liðsmenn Íslandsmeistaraliðs Mammúta eru: Jón Ingi Sigurðsson fyrirliði, Ólafur Freyr Númason, Jens Kristinn Gíslason, Haraldur Ingólfsson og Sveinn H. Steingrímsson. Jón Ingi og Ólafur hafa orðið Íslandsmeistarar með liðinu í öll þjrú skiptin sem liðið hefur unnið titilinn.

 

Úrslitakeppnina í tölum má sjá í excel-skjali hér.

Krulluvefurinn óskar liðunum til hamingju með árangurinn.