Íslandsmótið í krullu: Skráningu lýkur 31. janúar, keppni hefst 4. febrúar

Íslandsmótið í krullu 2008 er á næsta leiti en skrá þarf lið til leiks í síðasta lagi fimmtudaginn 31. janúar. Þar sem skráningu er ekki lokið er ekki komið í ljós hve mörg lið taka þátt en líkur eru á að þau verði ellefu. Tilbúin er leikjadagskrá bæði fyrir tíu og ellefu liða keppni. Ef liðin verða ellefu hefst keppni strax mánudaginn 4. febrúar. Þá verða leiknir fjórir leikir á kvöldi þannig að þrjú lið verða í fríi hverju sinni. Hlé verður gert á mótinu í mars, annars vegar vegna þátttöku Íslendinga í Heimsmeistaramóti eldri leikmanna og hins vegar vegna páskanna. Leikið verður tvisvar í viku frá 4. febrúar til og með 5. mars og síðan frá 26. mars til 7. apríl. Miðað við uppsetta keppnisdagskrá fyrir 11 liða mót munu tíu lið leika sjö leiki fyrir páska og svo þrjá eftir páska en eitt lið mun leika átta leiki fyrir páska og tvo eftir páska. Úrslitakeppni fer síðan fram helgina 11.-12. apríl. 

Nánar verður sagt frá reglum um keppnisfyrirkomulag og úrslitakeppnina þegar upplýsingar hafa borist frá Krullunefnd ÍSÍ.  

 

Eins og áður hefur komið fram er þátttökugjaldið 5.000 krónur á lið og skulu þátttökutilkynningar berast til Gísla Kristinssonar, gisli@arkitektur.is, eða Ágústar Hilmarssonar, agustehf@simnet.is, í síðasta lagi 31. janúar 2008.