Karfan er tóm.
Í A-riðlinum sigruðu Garpar Skytturnar og Víkingar sigruðu Svarta gengið. Garpar hafa unnið báða leiki sína til þessa, Skytturnar og Víkingar eru með einn sigur en Svarta gengið er án sigurs.
Í B-riðlinum vann Büllevål Riddarana nokkuð örugglega og Mammútar unnu Fífurnar. Mammútar hafa unnið báða leiki sína til þessa. Büllevål og Fífurnar hafa einn sigur en Riddarar eru án sigurs.
Úrslit kvöldsins:
Büllevål - Riddarar 11-3
Fífurnar - Mammútar 3-6
Garpar - Skytturnar 6-4
Svarta gengið - Víkingar 2-4
Sjá leikjadagskrá og öll úrslit í excel-skjali hér.
Í lokaumferð A-riðilsins eigast við Garpar og Víkingar annars vegar og Skytturnar og Svarta gengið hins vegar. Garpar geta tryggt sér efsta sæti riðilsins með sigri.
Ef hins vegar Garpar tapa fyrir Víkingum þá ná Víkingar þeim með tvo sigra. Ef Svarta gengið vinnur Skytturnar yrði röðin þessi: Víkingar, Garpar, Svarta gengið, Skytturnar. Hins vegar, ef Skytturnar vinna Svarta gengið (og Víkingar vinna Garpa) yrðu Garpar, Skytturnar og Víkingar jöfn og efst með tvo sigra hvert lið. Verði þessi þrjú lið jöfn er niðurstaðan úr innbyrðis viðureignum þeirra jöfn (hvert lið með einn sigur á milli þessara þriggja) og þá skiptir máli hve margar umferðir liðin hafa unnið. Þar er keppnin einnig mjög jöfn því Garpar hafa unnið 7 umferðir, Skytturnar 6 og Víkingar 5, þannig að ef þessi staða kemur upp getur skipt sköpum hve margar umferðir liðin vinna í lokaumferðinni (og jafnvel hve marga steina þau skora). Í steinaskori eru Skytturnar efstar með 13, Garpar hafa 12 og Víkingar 7.
Í lokaumferð B-riðilsins eigast við Mammútar og Büllevål annars vegar og Fífurnar og Riddarar hins vegar. Mammútar geta tryggt sér efsta sæti riðilsins með sigri.
Ef hins vegar Mammútar tapa gegn Büllevål þá verða þessi lið jöfn með tvo sigra. Ef síðan Riddarar myndu vinna Fífurnar yrði röðin þessi: Büllevål, Mammútar, Riddarar, Fífurnar. Hins vegar, ef Fífurnar vinna Riddara (og Büllevål vinnur Mammúta) yrðu Büllevål, Fífurnar og Mammútar efst og jöfn með tvo sigra hvert lið og þá er einnig jafnt í innbyrðis viðureignum þessara liða. Þá skiptir máli hve margar umferðir liðin hafa unnið. Þar standa Mammútar best að vígi með 9 umferðir, Büllevål hefur unnið 8 umferðir og Fífurnar 4. Í steinaskori stendur Büllevål best að vígi með 19 steina, Mammútar hafa skorað 16 og Fífurnar 11.
Lokaumferðin verður leikin mánudagskvöldið 11. janúar en þá eigast við:
Braut 1: Víkingar - Garpar
Braut 2: Skytturnar - Svarta gengið
Braut 3: Mammútar - Büllevål
Braut 4: Riddarar - Fífurnar
Ísumsjón: Büllevål, Riddarar, Mammútar, Fífurnar.