Jöfn úrslitakeppni eftir fyrstu tvo leikina

Ingvar Þór lætur vaða á markið.  Ljósmynd Ásgrímur Ágústsson
Ingvar Þór lætur vaða á markið. Ljósmynd Ásgrímur Ágústsson
Nú er tveimur leikjum lokið í úrslitakeppni karla í íshokkí og er staðan í viðureignum 1 - 1.  Fyrsti leikurinn fór fram á fimmtudaginn og lauk honum með sigri Bjarnarins 4 - 1.  Björninn fór betur af stað í upphafi leiks og hélt undirtökunum til leiksloka.  Við áttum þungar sóknir, nokkur stangarskot og oft munaði mjög litlu að pökkurinn færi inn en heppnin var ekki með okkur að þessu sinni.  Eina mark okkar skoraði Jón Gíslason eftir skot frá bláu frá Josh Gribben.

Seinni leikurinn fór svo fram í gær og líkt og í fyrri leiknum voru það Bjarnarmenn sem fóru betur af stað og vorum við í einhvers konar eltingaleik alveg fram í þriðju lotu.  Fyrsta mark Bjarnarins kom snemma leiks en Jón Gísla jafnaði leikinn fyrir lok lotunnar.  Í  2. lotu skoruðu gestirnir tvö mörk og komust í 3 - 1, en Rúnar Freyr Rúnarsson minnkaði muninn eftir sendingu frá Andra Sverrissyni og því stóðu leikar 3 - 2 Birninum í vil í upphafi 3. lotu.

Í 3. lotu var það SA sem stjórnaði leiknum og vann lotuna 5 - 1 og tryggði sér sætan 7 - 4 sigur.  Jón Gíslason jafnaði leikinn fljótlega í upphafi lotunnar og þá var ekki aftur snúið, Stefán Hrafnsson bætti við tveimur fallegum mörkum, Ingvar Þór Jónsson einu og svo skoraði Rúnar Freyr í tómt markið á síðustu sekúndunum og innsiglaði öruggan sigur.

Staðan er þá orðin 1 - 1 og spennan í hámarki.