Karfan er tóm.
Sunnudaginn 16. desember kl. 17.30 verða iðkendur Listhlaupadeildar Skautafélags Akureyrar með sína árlegu jólasýningu.
Sýningin ber heitið Jólaóskir og samanstendur af skemmtilegum dönsum sem iðkendur og þjálfarar hafa samnið, að sjálfsögðu undir fallegri tónlist. Tveir af þjálfurum deildarinnar, þær Telma Eiðsdóttir og Fjóla Gunnarsdóttir hafa umsjón með sýningunni og setja sýningaratriði einstakra iðkenda og hópa saman í heildstæða sýningu.
Allir iðkendur á vegum Listhlaupadeildarinnar taka þátt í sýningunni - og jafnvel einhverjir fleiri sem gætu komið á óvart.
Það er að sjálfsögðu tilvalið að taka sér stutt hlé frá jólaversluninni og ösinni í bænum, eða annríkinu heima og kíka við í Skautahöllinni á Akureyri, setjast niður með heitt kakó eða aðrar veitingar sem í boði eru og njóta skemmtilegrar jólasýningar á svellinu.
Á sýningunni verður Listhlaupadeildin jafnframt með til sölu gjafabréf í Skautaskólann, sem er auðvitað tilvalin jólagjöf bæði fyrir stelpur og stráka. Gjafabréfið kostar 4.000 krónur.
Aðgangseyrir er 1.000 krónur, en frítt er fyrir 12 ára og yngri og eldri borgara.