Karfan er tóm.
Á þriðjudaginn fóru Jötnar suður yfir heiðar og öttu kappi við Skautafélag Reykjavíkur. Markmið ferðarinnar var að ná stigi af þeim sunnlensku og það tókst. Hins vegar voru Jötnar grátlega stutt frá því að ná öllum stigunum en liðið var einu marki yfir þegar aðeins örfáar mínútur voru eftir af leiknum. SR tókst hins vegar að jafna skömmu fyrir leikslok og skoruðu svo gullmark miðja vegu inn í framlenginguna.
Leikurinn var annars jafn allan tíman eins og tölur gefa til kynna og liðin skiptust á að skora. Jötnar voru í töluverðum brottrekstrarvandræðum og SR skoraði öll sín mörk í venjulegum leiktíma í „power-play“ og nýttu sér liðsmuninn vel.
Ekkert mark var skorað í fyrstu lotu en í annarri lotu var það enginn annar en Birgir Örn Sveinsson sem skoraði fyrsta mark leiksins og kom Jötnum í 1 – 0. Birgir hefur marga fjöruna sopið í senior hokkí í gegnum tíðina en hann hefur hingað til staðið á milli stanganna og gætt möskvanna, en eftir að hann hafði félagaskipti yfir í Jötna hefur hann „styrkt“ sóknina. Markið var gull fallegt, viðstöðulaus þönder eftir sendingu frá Jóni Gísla. Önnur lota fór 3 - 2 fyrir jötna en sú þriðja 1 - 2 fyrir SR.
Með þessu stigi sem stolið var af SR komu Jötnar í veg fyrir að SR næði toppsætinu, en nú þegar tveir þriðju eru búnir af Íslandsmótinu standa SR og Víkingar jöfn á toppi deildarinnar með 27 stig.