Krulla: Ice Cup hefst eftir tvær vikur

Fjórtán lið taka þátt í Ice Cup, alþjóðlega krullumótinu sem Krulludeild SA heldur 1.-3. maí.

Nú eru aðeins tvær vikur í hápunkt krulluvertíðarinnar þegar Ice Cup hefst fimmtudagsmorguninn 1. maí. Skráningarfrestur er runninn út og hafa fjórtán lið skráð sig til leiks. Tíu heimalið, eitt lið frá Danmörku, eitt frá Bandaríkjunum, eitt sem er blandað frá Bandaríkjunum og Kanada ásamt liði sem verður blandað Hollendingum og heimafólki. Því miður kemur ekkert lið að sunnan að þessu sinni og er það í fyrsta sinn sem Ice Cup verður haldið án liða að sunnan.

Það eru ekki eftir mörg kvöld fyrir liðin til að æfa sig á svellinu fram að Ice Cup. Nú stendur yfir Marjomótið í krullu en lokaleikirnir í því móti fara fram mánudagskvöldið 21. apríl og síðan verður almenn æfing miðvikudagskvöldið 23. apríl fyrir það krullufólk sem hefur áhuga á að æfa sig fyrir mótið. Í vikunni fyrir Ice Cup verður síðan unnið að því að gera svellið krulluvænna.

Ítarlegri upplýsingar um Ice Cup, keppnisfyrirkomulag, uppákomur í kringum mótið ásamt kynningum á erlendu liðunum verða birtar hérna á vefnum fram að mótinu.