Krulla - OPIÐ HÚS, ALLIR GETA PRÓFAÐ

Krullufólk verður með opið hús í Skautahöllinni á Akureyri laugardaginn 6. mars kl. 17.30-19.30. Krullufólk sem les þessa frétt er hvatt til að koma þessum upplýsingum áfram til vina og kunningja. Meðal annars er hægt að nota Facebook til þess því þar hefur verið stofnaður viðburður sem hægt er að bjóða fólki á - sjá hér.

Laugardaginn 6. mars kl. 17.30-19.30 verður OPIÐ HÚS á vegum krullufólks í Skautahöllinni á Akureyri. Þar gefst öllum kostur á að koma og prófa þessa skemmtilegu íþrótt undir handleiðslu þeirra sem spila hana reglulega. Allur búnaður er á staðnum og er nóg að fólk komi í hreinum, stömum íþróttaskóm og íþróttabuxum. Þetta er upplagt tækifæri til að kynnast þessari skemmtilegu íþrótt af eigin raun, sérstaklega fyrir þá sem alltaf hafa undrast hvað er svona merkilegt við krulluna og af hverju fólk sem hana stundar getur ekki talað um annað og af hverju krullufólki finnst þessi íþrótt svo skemmtileg. Þeir sem mæta fá tilsögn í íþróttinni, hafa nægan tíma til að prófa sig áfram og jafnvel að spila stutta leiki og fá einnig upplýsingabækling um íþróttina og starfsemi Krulludeildar SA. Rétt er að vara væntanlega gesti við að hætta er á að þeir falli fyrir íþróttinni og fari að stunda hana reglulega. Þeim er það að sjálfsögðu velkomið og eru allir velkomnir á æfingar í krullunni. Æfingar og keppni fara fram í Skautahöllinni á Akureyri á mánudagskvöldum kl. 20.30 og miðvikudagskvöldum kl. 21.30. Opna húsið er upplagt tækifæri fyrir vinahópinn eða vinnustaðinn eða saumaklúbbinn eða hvaða hóp sem er til að koma sér af stað, stofna lið og stefna að því að keppa í íþróttinni.

Nú stendur Íslandsmótið sem hæst, fjórum umferðum er ólokið og er hörð keppni um það hvaða fjögur lið fara í úrslitin. Áhugasamir geta hvort heldur er mætt og spilað á lausum brautum á mánudags- og miðvikudagskvöldum eða bara sest upp í stúku og fylgst með jöfnum, spennandi og skemmtilegum leikjum í þessari baráttu. Næsta umferð í deildarkeppni Íslandsmótsins verður mánudagskvöldið 8. mars, síðan 10., 15., 17. og 22. mars en úrslitakeppni fjögurra efstu liða fer fram 26. og 27. mars.

Krullufólk sem les þessa frétt er hvatt til að koma þessum upplýsingum áfram til vina og kunningja. Meðal annars er hægt að nota Facebook til þess því þar hefur verið stofnaður viðburður sem hægt er að bjóða fólki á - sjá hér.