Krullan framundan - Opinn mánuður og skráningar í Ice Cup

Í dag er réttur mánuður þangað til Ice Cup hefst. Skráningarfrestur er til 15. apríl. Krullufólk er hvatt til að skrá sig sem fyrst til að auðvelda skipulagningu. Margir "opnir" tímar í apríl en ekkert mót fram að Ice Cup.

Núna þegar Íslandsmótinu er lokið og vorið á næsta leyti fer auðvitað að koma árlegur fiðringur í krullufólk. Ice Cup er á næsta leyti. Aprílmánuður fram að undirbúningi Ice Cup verður mjög "opinn" mánuður því ekki er ætlunin að halda mót heldur gefst krullufólki gott tækifæri til æfinga, nýju fólki gefst kostur á að koma og prófa og er krullufólk hvatt til að koma með nýtt fólk á svellið til að "sýkja" það af krullubakteríunni. Opnu tímarnir eru líka upplagðir fyrir lið, bæði gömul og ný, til að skora hvert á annað í leik.

Í kvöld verður reyndar mikið um að vera á svellinu, starfsfólk Sjúkrahússins á Akureyri að keppa á að minnsta kosti fjórum brautum og er aðstoð krullufólks vel þegin til að halda utan um þá keppni.

Opnir tímar í apríl verða þá sem hér segir:

 Dagur 
Dagur  Klukkan
 Miðvikudagur
 31. mars 
 21.30
 Mánudagur 
 5. apríl
 20.30
 Miðvikudagur
 7. apríl 
 21.30
 Mánudagur 
 12. apríl
 20.30
 Miðvikudagur
 14. apríl 
 21.30
 Mánudagur
 19. apríl
 20.30
 Miðvikudagur
 21. apríl 
 21.30

Mánudagur 26. og miðvikudagur 28. apríl: Engin krulla vegna vinnu við undirbúning svellsins fyrir Ice Cup.

 

Skráningar á Ice Cup

Í dag er réttur mánuður þar til Ice Cup hefst og um tvær vikur þar til skráningarfrestur rennur út. Það er því ekki seinna vænna hjá heimafólki að huga að því hvort allir liðsmenn eru á lausu síðustu helgina í apríl (29. apríl-1. maí) og ganga frá skráningu liða. Reiknað er með að hefja keppni síðdegis á fimmtudegi, spila allan föstudaginn og ljúka keppni síðdegis á laugardegi.

Nú hafa 17 erlendir keppendur verið skráðir til leiks, þrjú fullmönnuð lið (Skotland, Hvíta-Rússland/Rússland og Bandaríkin), eitt skipað þremur útlendingum (Bandaríkin) og eitt skipað tveimur útlendingum (Írland).  Þau tvö síðasttöldu verða fyllt upp með heimafólki. Áréttað er það sem áður hefur verið nefnt hér á vefnum að ef krullufólk hefur áhuga og rými til að hýsa eitthvað af þessum erlendu keppendum þá er slíkt vel þegið.

Aðeins tvö af heimaliðunum hafa tilkynnt þátttöku og er krullufólk beðið um að tilkynna þátttöku sem fyrst og í síðasta lagi 15. apríl. Því fyrr sem skráningar berast, því auðveldari verður skipulagning. Það á meðal annars við ef einhvers staðar vantar liðsmenn til að fylla í lið þannig að fyrr verði hægt að tryggja öllum sæti sem vilja og geta verið með. Rétt er að benda á að hámarksfjöldi liða er 16. Það borgar sig því að ganga strax í málið.

 

Skráningar sendist í netfangið haring@simnet - takið fram nafn liðs og nöfn allra liðsmanna.