Karfan er tóm.
Krullufólk ársins 2014
Davíð Valsson, leikmaður Ice Hunt frá Skautafélagi Akureyrar, varð efstur í kjöri stjórnar sem krullumaður ársins 2014. Davíð hóf krulluferilinn af alvöru árið 2002 og hefur gegnum tíðina leikið með fjölda liða og unnið hina ýmsu titla m.a. Bikar- og Akureyrarmeistaratitil. Nú í ár varð Davíð Akureyrarmeistari 2014 með félögum sínum í Ice Hunt. Meðal liða sem Davíð hefur leikið með má nefna Fálka, Garpa, Bragðarefi og Ísbrjóta þar sem hann spreytti sig á fyrirliðastöðunni í fyrsta sinn. Davíð hefur einnig reynt fyrir sér á mótum erlendis.
Davíð Valsson er stjórnarmaður í Skautafélagi Akureyrar og einnig í Krulludeildinni þar sem hann hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf. Hann hefur verið duglegur að kynna íþróttina út á við og draga að nýja iðkendur.
Þetta er í fyrsta sinn sem Davíð hlýtur þann heiður að vera valinn krullumaður ársins og er hann vel að titlinum kominn. Krulludeild Skautafélags Akureyrar óskar honum innilega til hamingju.
Svanfríður Sigurðardóttir (Svana)er Krullukona ársins 2014 hjá Skautafélagi Akureyrar. Svana hefur stundað krullu lengst allra kvenna hér á landi og verið ötull liðsmaður m.a. í Örnum, Listhlaupurum, Fífum og Freyjum. Svana hefur stýrt liði sínu Fífunum gegnum súrt og sætt á undanförnum árum og verið dugleg að koma með nýja kvenkyns iðkendur inn í lið sitt og hjálpa þeim að fóta sig á svellinu. Á árinu 2014 lék Svana með Freyjum sem voru eina liðið sem einungis var skipað konum.
Svana hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Skautafélagið og Krulludeildina. Hún er ávallt reiðubúin til starfa fyrir félagið og vinnur störf sín af vandvirkni, fórnfýsi og samviskusemi.
Þetta er í annað sinn sem Svana hlýtur þann heiður að vera valinn krullukona ársins en hún hlaut einnig titilinn árið 2008. Svana er vel að titlinum kominn og óskar Krulludeild innilega til hamingju.