Karfan er tóm.
Hjónin Svanfríður Sigurðardóttir og Jón Rögnvaldsson eru krullufólk ársins hjá Krulludeild Skautafélags Akureyrar. Svanfríður og Jón hafa stundað Krullu frá fyrstu dögum íþróttarinnar hér á landi. Þau hafa nánast keppt í öllum mótum sem haldin hafa verið og unnið til fjölda verðlauna. Einnig hafa þau tekið þátt í móti erlendis.
Jón Rögnvaldsson, leikmaður Víkinga frá Skautafélagi Akureyrar, varð efstur í kjöri stjórnar sem krullumaður ársins 2015. Hann hefur gegnum tíðina leikið með fjölda liða og unnið hina ýmsu titla.
Jón er fyrirmyndar íþróttamaður, yfirvegaður, vandvirkur og samviskusamur. Hann leggur sig ávallt allan fram, bæði í leik og starfi fyrir félagið. Jón hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum, bæði fyrir Skautafélagi Akureyrar og einnig Krulludeildina þar sem hann hefur unnið mikið og óeigingjarnt verk. Hann hefur verið duglegur að kynna íþróttina út á við og draga að nýja iðkendur.
Þetta er í fyrsta sinn sem Jón hlýtur þann heiður að vera valinn krullumaður ársins og er hann vel að titlinum kominn. Krulludeild Skautafélags Akureyrar óskar honum innilega til hamingju.
Svanfríður Sigurðardóttir er Krullukona ársins 2015 hjá Skautafélagi Akureyrar. Hún hefur gegnum tíðina leikið með fjölda liða og unnið hina ýmsu titla. Svana hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Skautafélagið og Krulludeildina og er ávallt reiðubúin til starfa fyrir félagið. Hún vinnur störf sín af vandvirkni, fórnfýsi og samviskusemi og er góður fulltrúi íþróttarinnar. Þetta er í þriðja sinn sem Svana hlýtur þann heiður að vera valinn krullukona ársins en hún hlaut einnig titilinn árið 2008 og 2014. Svana er vel að titlinum kominn og óskar Krulludeild SA, henni innilega til hamingju.