Kvennalið SA sigrar 3 - 2

Margrét átti stórleik í markinu - ljósmynd Ásgrímur Ágústsson
Margrét átti stórleik í markinu - ljósmynd Ásgrímur Ágústsson

Í kvöld mættust Skautafélag Akureyrar og Björninn í kvennaflokki í Skautahöllinni á Akureyri.   Heimastúlkur áttu harma að hefna eftir að hafa tapað stórt í fyrsta leik 5 – 1 í Egilshöll á dögunum.  Miklar leikmannabreytingar hafa verið hjá SA liðinu frá því í fyrra og mikið af byrjendum í liðinu og því á brattann á sækja.  Því ríkti mikil spenna í herbúðum heimastúlkna fyrir þennan leik.SA fór betur af stað og stjórnaði fyrstu mínútum leiksins og það var þjálfarinn Sarah Smiley sem skoraði fyrsta markið eftir aðeins 35 sekúndna leik.  

Það sem eftir lifði lotunnar skiptust liðin á að sækja en markenn beggja liða voru í banastuði og héldu öllum pekkjum frá möskvunum og því urðu mörkin ekki fleiri í lotunni.   Í 2. lotu var allt áfram í járnum og en á 3. mínútu lotunnar var það fyrirliðinn Jónína Guðbjarsdóttir sem jók forystuna með góðu skoti frá bláu línunni í gegnum traffík og Karítas í marki Bjarnarins sá aldrei pökkinn.  

Bjarnarstelpurnar sóttu í sig veðrið og um miðbik lotunnar minnkaði Eyfirðingurinn og fyrrum SA leikmaðurinn Steinunn Sigurgeirsdóttir muninn í 2 – 1.  Á 15. mínútu leiksins var Hrund Thorlacius rekin útaf og reyndist það eina brottvísunin í leiknum.  Björninn pressaði mikið og SA var nánast í nauðvörn í fullar tvær mínútur en tókst þó að halda hreinu og staðan hélst óbreytt út lotuna.

 

Spennan hélt því áfram í 3. lotu en það var svo Guðrún Blöndal sem skoraði sigurmarkið á 9. Mínútu lotunnar eftir að hafa hirt um sitt eigið frákast eftir góðan undirbúning Evu Maríu Karvelsdóttur.  Á sömu mínútu var Steinunn aftur á ferðinni fyrir Björninn og minnkaði muninn í 3 -2 og þrátt fyrir harða baráttu allt til leiksloka urðu mörkin ekki fleiri.  Að öðrum ólöstuðum þá voru það markmenn beggja liða sem voru bestu leikmenn vallarins.

 

Mörk og stoðsendingar

 

SA:  Sarah Smiley 1/0, Jónína Guðbjartsdóttir 1/0, Guðrún Blöndal 1/0

 

Björninn:  Steinunn Sigurgeirsdóttir 2/0, Ingibjörg Kjartansdóttir 0/1