Karfan er tóm.
Á laugardagskvöldið mættust hér í Skautahöllinni SA og Björninn í kvennaflokki. Liðin hafa verið nokkuð jöfn í vetur og viðureignirnar jafnan spennandi. SA fór betur af stað og náði tveggja marka forystu með mörkum frá Hrund Thorlacius og Söruh Smiley í fyrstu lotu og þannig stóðu leikar eftir lotuna og útlitið bjart fyrir heimastúlkur.
Lið Bjarnarins var þó ekki búið að gefast upp og mætti tvíeflt til leiks í 2. lotu og skoraði þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni í 2 – 3. Guðrún Blöndal jafnaði síðan leikinn um miðbik lotunnar fyrir SA í power play og Sarah bætti svo við 4. markinu skömmu síðar og kom SA aftur í forystu fyrir lok lotunnar.
Í 3. og síðustu lotunni bætti svo SA við tveimur mörkum til viðbótar og innsiglaði sigurinn, en þar voru aftur að verki Sarah Smiley og Guðrún Blöndal. Góður 6 – 3 sigur hjá liðinu sem sýnt hefur stöðugar framfarir í vetur og hefur náð að slípa sig ágætlega saman þrátt fyrir miklar breytingar á leikmannahópnum frá því á síðasta leiktímabili. Reyndari leikmenn draga vagninn og nýliðarnir koma sterkari inn með hverjum leiknum auk þess sem Margrét er traust í markinu.