Marjomótið - 1. umferð miðvikudagskvöldið 9. apríl

Átta lið eru skráð til leiks. Dregið í tvo riðla fyrir fyrstu umferðina.

Aðeins átta lið eru skráð til leiks í Marjomótinu í krullu sem hefst miðvikudagskvöldið 9. apríl. Dregið verður í tvo riðla við upphaf fyrstu umferðarinnar. Leikið verður allir við alla innan riðlanna en síðan verða leikir um sæti gegn liði úr hinum riðlinum, efsta lið hvors riðils um gullverðlaun og svo framvegis. Leikirnir í riðlunum verða 9., 14. og 16. apríl en úrslitaleikirnir 21. apríl. Svellið verður síðan opið til æfinga miðvikudagskvöldið 23. apríl og er það væntanlega síðasta tækifæri til æfinga fyrir Ice Cup.

Við röðun liða sem enda jöfn að stigum gildir innbyrðis viðureign. Ef hún nægir ekki til að skera úr um röðina gildir árangur í skotum að miðju. Sú skotkeppni fer fram við lok fyrstu umferðarinnar. Báðir leikmenn hvers liðs taka skot að miðju hrings og gildir samanlögð fjarlægð frá steini að miðju. Það lið sem hefur lægra skor í skotum að miðju telst ofar í röðinni.

Þátttakendur eru hvattir til að kynna sér reglurnar fyrir tvenndarkeppni vel. Sérstaklega er vakin athygli á tvennu: Sú breyting hefur orðið að fyrsti steinn sem nota má til að skjóta út öðrum steinum er fjórði steinn sem sendur er í leiknum, þ.e. annar steinn þess liðs sem ekki byrjar leikinn.

Einnig er vakin athygli á túlkun WCF á reglunum þess efnis að þegar leikmaður sendir stein skal meðspilari hans vera innan hog-línu hinum megin, þ.e. inni í kassanum. 

Leikjadagskráin - excel-skjal hér.

Reglur fyrir tvenndarkeppni (mixed doubles)