Karfan er tóm.
Íshokkídeild Skautafélags Akureyrar hefur náð samkomulagi við Mark LeRose um að gerast yfirþjálfari Íshokkídeildarinnar. Mark mun stýra meistaraflokkum félagsins og verður einnig yfirþjálfari U18, U16 og U14 flokkanna. Mark er reynslumikill þjálfari sem hefur þjálfað bæði í Evrópu sem og Norður-Ameríku og á flestum stigum leiksins. Reynsla hans af þjálfun meistaraflokka sem og þróun yngri leikmanna passar því vel við hlutverk hans hjá Skautafélaginu.
Mark er 50 ára og kemur frá Aspen Colorado í Bandaríkjunum. Mark hefur komið víða að á ferlinum og verið þjálfari hjá liðum í WHL, NCAA og AHL deildunum í Norður-Ameríku ásamt því að hafa verið myndbands- og tækniþjálfari hjá Pittsburg Penguins í NHL deildinni. Þá hefur hann einnig komið við í Evrópu og þjálfað U-20 lið RedBull Salzburg í Austuríki og Mora IK í Svíþjóð. Síðustu árin hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri hjá Sioux City Musketeers í USHL sem er sterkasta áhugamannadeild yngri leikmanna í Bandaríkjunum.
Mark er helst þekktur fyrir leikmannaþróun og komið að þjálfun margra af bestu leikmönnum heims. Hugmyndafræði Marks rímar ótrúlega vel við það sem félagið hefur leitað eftir og verður virkilega skemmtilegt að fylgjast með liðunum okkar í vetur.
Skautafélag Akureyrar er stolt af því að geta kynnt Mark til sögunnar sem yfirþjálfara félagsins og við bjóðum hann velkominn til starfa.